Mansöngur

1

Fjarri leiðum fengsældar,
frá því snemma á hausti,
rambar nú mitt frostafar
fram úr vetrarnausti.

2

Þó að vökni vettir manns,
vart ég sýta nenni,
ef ég bara einhvers lands
einhvern tíma kenni.

3

Þótt nú gerist harðla hvasst,
hrikti í rám og taugum,
segladótið set ég fast,
sigli beint af augum.

4

Heiglum vist á víðum mar
varla hentug myndi:
kænan fleytir kerlingar
knúin gýgjar vindi.

5

Sleppi ég ei lífs til lands
læt ég on'á fljóta
rímnastúf um Rósinkranz.
Rúnastínatóta?

Ríman

6

Rétt í grennd víð Rauðasand
-risi boða innar
raunverunnar rak á land
rekald sögu minnar.

7

Skapt í kross og kvikt að sjá
- klæðir belgur þunnur
finnast líka augu á,
eyru, nef og munnur.

8

Eftir tíðkan aldar þá,
öls við þamb og teiti,
kastað vígðu vatni á,
- valið mannlegt heiti.

9

Rekkar nefna Rósinkranz
reifaþundinn fríða.
Orka vex og andi hans,
- áfram stundir líða.

10

Tíu vetra orðinn er
öðrum sveinum fegri
fulla hreysti fjögra ber,
flestum vígalegri.

11

Segja hverja sögu má
sem hún vísast gengur:
Gjörist snemma hrundum hjá
heimagöngull drengur.

12

Stráks á munni stundum er
stefjuð kerskniglósa,
sjaldan marki framhjá fer
flaugarskeyti Rósa.

13

Eyra heillar æskumanns
unnar strengjakliður,
enda löngum liggur hans
leið til strandar niður.

14

Feðra arfur, farmannsþrá,
forn í brjósti lifir.
Augu furðufangin sjá
fjörðinn Breiða yfir.

15

Spurul leitar unglingsönd
eigi troðnar slóðir.
Bak við fjarskans bláu rönd
bíða lönd og þjóðir.

---

16

Þykja hausti einu á
illar heimtur vera.
Fyrir dyrum virðist vá,
varla nóg að skera.

17

Byggðin færist böls í móð,
bændur stefnu halda.
Telja flestir tröllastóð
tjóni þessu valda.

18

Háum launum heitið er
hverjum þeim, er kynni
bænda rétta hlutinn hér
hreysti meður sinni.

19

Rekkar nú um Rósinkranz
ræða fláum munni,
hversu dárleg digurð hans
duga í raunum kunni.

20

Ungur maður andsvör greið
orðum reifar fáum,
fyrir þjóð á þessa leið
það vér endurskráum:

21

"Hvergi munu heiglar mér
hugar frýja lengi.
Hvað sem oss að höndum ber,
hræddan sér mig engi.

22

Sýna mun ég senn þess vott
sveit í nýju ljósi “.
Að svo mæltu arkar brott
æði snúðugt Rósi.

23

Fer ei sögn af ferðum hans,
fyrr en viku síðar:
Rísa fyrir Rósinkranz
rauðar skriðuhliðar.

24

Hann að einum helli ber
háum mjög og víðum.
Hlýtt og bjart af arni er,
eldalog á skíðum.

25

Hvílir pottur hlóðum á,
heldur stór í seti,
ljúfa honum leggur frá
lykt af soðnu keti.

26

Hugar sveinn að hættum fyrst
- heilla sauðalæri
etur síðan eftir lyst,
eins og heima væri.

27

Inni trölla arni hjá
eftir málsverð góðan
svefn og þreyta sækir á
segginn göngumóðan.

28

Svífur beimur svefns í fang
sæll í ranni gríðar,
hrekkur upp við undirgang
andartaki síðar.

29

Sér til ferða ferlegs manns,
fylgir mikil dyrgja,
risavaxnar herðar hans
hellismunnann byrgja.

30

Beggja fas og fótatak
firra setu boðna.
Hafa tröll í brjóst og bak
belgi uxa troðna.

31

Seggur nú af syfju frí
sinu ráði hastar:
Hellis-búans eina í
auga hnútu kastar.

32

Augað liggur úti á kinn,
öllu sviptur ljósi
karl í helli æðir inn,
er þar fyrir Rósi.

33

Kappinn grípur gnissu frá
gilda skálm á lofti,
sendir aftur, fálan flá
fellur glenntum hvopti.

34

Risinn þrífur Rósa til,
Rósi biðst ei friðar,
hart er spyrnt í hellisþil,
hamrabergið riðar.

35

Gaman þetta gerist flátt,
gráleg armaspenna.
Ungum manni orkufátt
er við jötun þenna.

36

Sífellt harðna sviptingar,
sjá má vart í milli:
risinn neytir rammleiks þar,
Rósi vits og snilli.

37

Leik að hellu ber nú brátt,
bregður fæti drengur:
dólgur fjalla hrín við hátt,
hryggur sundur gengur.

38

Eftir gjörð hin greindu skil
gildur hjörvarjóður
hallast upp við hamra-þil,
hvergi sár, en móður.

39

Hér mun eigi hlotnast nein
hvíld í nauðum brýnum:
skjótt í hellinn skálmar ein
skessa mikil sýnum.

40

Nú mun allrar orku neytt,
engin vægð né blíða:
teknar sveiflur, brögðum beitt,
brölt um hellinn víða.

41

Hvorugt boðar hinu grið,
hamast flagð og drengur.
Handargripin hamrömm við
hold frá beini gengur.

42

Heldur lamar mæði mann
meira nú en hana.
Loksins fyrir fálu hann
fellur máttarvana.

43

"Mun nú tafin mjög þín för,"
mælir pilsa-gerður,
bjóðast engi kostakjör,
kjósa samt þú verður.

44

Sveini get ég vöskum veitt
vetrarsetu fína,
það um velja áttu eitt,
ella lífi týna."

45

Fyrir traustu taki vífs
tjáir vörn ei lengur.
Illa settur sér til lífs
svarar fallinn drengur:

46

"Vetrardvöl á vondum stað
vil ég heldur kjósa".
Sjálfsagt færu ýmsir að
eins í sporum Rósa.

47

Aftur greinir ganhaldsbrú:
"Gera skaltu betur:
eiga skulum eg og þú
eina sæng í vetur.

48

Tel ég þér til þrifa fátt,
þína giftu kléna,
ef þú sakir eymdar mátt
eigi telpu þéna."

49

Byggðadrengur byrstur þá
bregzt við slíkri frýju:
ræður flagðið aftur á
afli hertur nýju.

50

Bragði snjöllu konan kná
kann ei móti gætur.
Hana Rósi ofan á
ólmur fallast lætur.

51

Hreysti búinn halur þá
hrindir þúst og leiða:
þiggur bjarga-bryðju hjá
bjarnarnæturgreiða.

52

Líður vetur furðu fljótt,
flegðan gjörva lætur
dýrri víns og vista gnótt
veizlu daga og nætur.

53

Gerist hveðru heiðin sál
haldin angri og kvíða:
Hækkar sól, og sumarmál
senn að garði ríða.

58

Halda mun ég gefin grið,
gerða sátt og eiða,
þótt mér skyggi í skapi við
skilnað okkar leiða.

59

Aldrei mun þér orkufátt,
eigi heldur ráða,
stóra og marga eftir átt
orrasennu háða.

60

Nema muntu nýjan sið,
nýja guði blóta
og í grimmum geiraklið
glæstan sigur hljóta.

61

Órar greina annað fátt,
augum hamlar glýja.
Sé ég þó í sólarátt
siðinn þann hinn nýja.

62

Þessu fári verst í vök
veldið trölla forna.
Þaðan koma ragnarök,
reiðiskapanorna.

63

Héðan brautu heldur þú,
hlýt ég angurs kenna.
Okkur skilja örlög nú,
ei má sköpum renna.

64

Hverfa mun nú hvort sinn veg
heim til garða sinna.
Engri konu ann þó ég
ástarhóta þinna.

65

Þig að lokum legg ég á,
lostin ástarbruna:
meyju engri máttu hjá
mennskri framar una."

66

Vinakveðja að vonum hér
verður blandin trega.
Menjaþöll og mækjagrér
minnast ákaflega.

---

67

Andans flótti ógnar mér,
orðagnóttin flúin.
Njörva dóttir nálgast fer,
nærri þróttur búinn.


Önnur ríma

Úr tröllahöndum heimtur,
hugsar Rósi sinn gang.

Mansöngur

1

Niðri í boðnar Nausti enn á næturþeli
hampa ég Óðins hanastéli.

2

Heyr mig seljan safírblárra sokkabanda,
nú er ég í nokkrum vanda.

3

Trauðla mun ég talinn garpur tízkulista,
maður ekki til að twista.

4

Man ég reyndar mína daga merkilegri,
- man ég og minn fífil fegri.

5

Man ég, er þú áður gafst mér undir fótinn
skömmu eftir aldamótin.

6

En mætti skynja mjaðarþef úr minum vitum,
sætti þetta sambandsslitum.

7

Nú er komin öldin önnur, annar siður.
Hvað er upp og hvað er niður?

8

Að þér rétta ýmsa vega
æfðar hendur, bílgæjar og barstyðjendur.

9

Furðulega "flegin", dyft og fagurskrokkuð
hvíslarðu að mér: áttu nokku'ð?

10

En yrki ég til þín Edduskreytta afmorsvísu
mælir þú mig augum ýsu.

11

Hvernig má ég þóknast þér að þjóri Braga,
drottning minna ljóða og laga.

12

Um þig gengur undarlegur orðasveimur,
- þannig er hann, þessi heimur.

13

Er það satt, þú metir meira en mína bögu
Hótel Borg eða Hótel Sögu?

14

Er það satt, mín beðjan bjarta byrðar grana,
að þú hýsir Amríkana?

15

Út af þessu illan bifur að mér setur,
-fósturlandsins Freyju tetur.

16

Hangi ég því með sýrðan svip og sinnu lasna
yfir daufum durins-asna.

17

Miður fagurt mansöngshjalíð muna þyngir.
Sögu minnar sími hringir:

Ríman

18

Sem þar kemur sögn á fyrsta sumars degi,
brýni ég mínu fjalars fleyi.

19

Skyndilega skýrt og vel nú skynjar Rósi
náttúruna í nýju ljósi:

20

Forneskjunnar fargi létt og fjötur brostinn.
-Stendur hann eins og steini lostinn.

21

Svalur ríkir sumars blær og sól á fjöllum.
- Dimmt er enn í dölum öllum.

22

Aldrei hafð'ann augum litið undur fegri,
- aldrei víddir unaðslegri:

23

Fjallið gneypt sem guðvef sólar geisla vafið.
- Firðin dul og draumblátt hafið.

24

Þarna í heiðu himinveldi hljóðra fjalla
heyrð'ann landsins huldur kalla.

25

Drengs í brjósti heimfús hugur hlær og brennur,
Fyrir honum hjörðin rennur.

26

Kindur eru kvikar vel og kúluvembdar,
flestar eða allar lembdar.

27

Harðla fátt af heimferðinni hermir saga,
stóð hún, trúi ég, tíu daga.

28

Búendur fagna baldri fríðum báru ljósa.
Heilar sveitir hylla Rósa.

29

Margur kotakarlinn rak upp kætihlátur,
þegar sá hann sínar skjátur.

30

Sumir, áður sem um Rósa sízt var gefið,
blessa hann nú og bjóða í nefið.

31

Lýðir þá af langferðinni leita frétta.
Eigi tér hann allt af létta.

32

Gjörð er veizla gildum hal í góðu standi.
Dansað er og drukkinn landi.

33

Skatnar þarna skemmta sér í skapi fínu.
Býst svo hver að búi sínu.

34

Hetja vor að hófi loknu hröðum gandi
ríður heim að Rauðasandi.

35

Honum fagnar bóndabær og bernskuslóðir,
foreldrar og frændur góðir.

36

Klæðist sínu sumarskrúði sveitin fríða.
Störfin kalla, stundir líða.

37

Allajafna sveigir sverða sinnisgáður
slær sér minna út en áður.

38

Fremur er hann fáskiptinn um ferðir hinna,
traustur vinur vina sinna.

39

Gulls um beðjur fer hann fingrum furðu hálum.
- Segir ei af hans ástamálum.

40

En ef þurfti til að taka táps og hreysti,
öld þá betur engum treysti.

41

Talinn er hann öðrum fremri á óru landi
hvössum til að beita brandi.

42

Bragna enginn betur má á búrhvalsstrindi
aka seglum eftir vindi.

43

Fannst þar engi ýta, honum af sem bæri
er menn drógu fisk á færi.

44

Maður enginn meðal vor af meiri fimi
kann að lenda báti í brimi.

45

Marga hlaut hann ramma raun á rán að kanna:
beztur meðal barningsmanna.

---

46

Víst er Rósi eins og áður ör og glaður,
samt þó eigi samur maður.

47

Fer hann ávallt eigin götur upp frá þessu,
situr eigi sálumessu.

48

Eigi sjaldan öðrum fjær hjá unnar vangi
er hann séður einn á gangi.

49

Ár og síð menn segja hann kafinn sínum fræðum
grúskandi í gömlum skræðum.

50

Er hann þrátt sem heimahögum horfinn öllum.
-Ljómar sól á sefafjöllum.

---

51

Hjarta kæra krúsidúllan krullupinna,
nú mun veðri Naumu linna.

Þriðja ríma

Rósi kallar menn til stórræða.
Einvalalið stefnir til Rauðasands.

Mansöngur

1

Stoppunála niftin hýr,
nægtum sálar búin,
í mér rjálar andi hlýr
innra báli knúinn.

2

Nú er hljótt um norðurfjöll,
nú er rótt í veri,
sofin drótt i dollarhöll,
draumanótt á skeri.

3

Finnum báðum frið og ró,
fagnar náðum sunna,
kúrir láð við kyrran sjó,
komdu og sjáðu, Gunna.

4

Komum, þúsund linda lands
ljóðið Lús að heyra,
sem að húsi huldumanns
hlustar músareyra.

5

Út við hamar á ég stað,
öllu framar næði.
Voða gaman væri
að vera saman bæði.

6

Hjörtum tveimur tendrar glóð
töfraheimur fundinn.
Áfram streymir iðin, hljóð
í unaðsgleymi stundin.

7

Njóla hnuggin fetar frá,
flýja skuggar voga,
skúta ruggar ósi á,
austurgluggar loga.

Ríman

8

Rym ég óð um Rósinkranz
reginmóði vígur.
Kær með þjóð í kotum lands
kappans hróður flýgur.

9

Lífsins vekja vegarhregg,
víkur brekahugur,
vaxa tekur vit og skegg,
viljans þrek og dugur.

10

Fjarlæg ströndin heillar hug
hafs í böndum víðum,
vængjum þöndum furðuflug
flýgur öndin tíðum.

11

Bernskuvengi, bæjargrund
býr ei lengur gaman.
Stæltur drengur stór í lund,
stefnir mengi saman.

12

Yfir heiðar Ísalands,
óraleiðir fanna,
hefja reið til Rauðasands
raðir breiðar manna.

13

Aðrir söndum svölum frá
súðagöndum mjúkum
fram með ströndum strangan sjá
stýra þöndum dúkum.

14

Þeir, er sækja þennan fund,
þarfnast hækju engir,
býsna sprækir, bernskri lund,
baggatækir drengir:

15

Brunar hringur brimilstjörn,
brekinn syngur krappi:
skjótast hingað heldur Björn
Húnvetninga-kappi.

16

Næstan Bjössa nefna má
nú í krössu máli:
Gunnar Öss, sem vekur vá
Viðris hvössu báli.

17

Höggva þungur geirs í gný
guminn ungur, hraustur,
beizlar lunginn Brandur í
Biskupstungum austur.

18

Hér má líka heyra og sjá
hildarspík með stóra
hreystiríkan hrossi á
Húsavíkur Nóra.

19

Halda í skyndi heiman má
holds frá synd og drykkju
geist sem vindur Grásteinn á
gjarða-tindabikkju.

20

Leikur á þræði, lagsmaður,
land á svæði þvísa:
hingað æðir Hendrekur,
- herjans glæður lýsa.

21

Atgangssnöggur, yglibrýnn,
eigi höggin mildar,
mun þar Bjöggi miður frýnn
meður böggum hildar.

22

Honum Gvendi Hrísness er
heims á enda friður,
skjómabendir skæður hér
skjaldarrendur bryður.

23

Talinn aftast eigi má,
ofurkrafti gæddur,
heitir Skafti seggur sá,
silfurkjafti væddur.

24

Eigi linir austan nú
arka hlynir skíða,
undir stynur Óðins frú:
Andréssynir ríða.

25

Fjalla handan Horni frá
-hrönn þótt sanda klappi
þóftugandi þeysir á
Þorsteinn Strandakappi.

26

Ei af hiki einkenndur
eða viki hliða,
býsna mikinn Brynjólfur
brúði stikar Þriða.

27

Engu væginn Ási í Bæ,
ekki í slaginn tregur,
refi laginn reiðir hræ,
raumur ægilegur.

28

Guðjón rauðan hristir haus,
hótar dauða fjendum,
þarfur snauðum – þindarlaus
þjóðar auðskapendum.

29

Yfir hellir íhöld stinn
Einar fellisdómi,
þings á velli þetta sinn
þrumar Gellisrómi.

30

Altygjaður Ísleifur
æ vill hraða gerðum,
enda maður einhamur
ekki í svaðilferðum.

31

Er hér mestur öðlingur
og að flestra dómi
allra gesta göfgastur
Gunnar prestasómi.

32

Kraftaversin kyrjar ný
kempan þessi prúða,
lýðinn blessar öllum í
Óðins messuskrúða.

33

Lagði stund í æsku á
aldna þundarsnilli
Þorbjörnskundur þekktri hjá
Þuríði sundafylli.

34

Úfinn lög, við ölduglam
Ólafs mögur stóri
hér á sögusviðið fram
siglir Gjögurs-Dóri.

35

Svellur móður Sigurði
svarabróður mínum,
heilsar þjóð af háttsnilli
hann með ljóðum sínum.

36

Margur hingað ljær sitt lið
loðvíkingur slyngur.
Hér og stingur stafni við
stöku Þingeyingur.

37

Aðeins svona undir grun
Ásmundsson kvað falla,
þar eð honum mest í mun
munu konur fjalla.

38

Þeysir norðan Þóroddur,
þundur korða, sagður
gjörða og orða ábyrgur,
- enda borðalagður.

39

Hver þar skælist, ill þótt á
austanbræla renni?
Það er Sælinn, svei mér þá,
sem ég þrælinn kenni.

40

Fundinn seinast eigi á
ætla' ég Steinþór skynda.
Kögursveinar þeygi þá
þurfa um skeinu að binda.

41

Álminn spannar Ingimann,
öðling þann ég mæri.
Viðris-svanna víst með sann
veður hann í læri.

42

Lagið ára Kúldinn kann,
kempan bárum vana,
darrs í fári hræðist hann
hvorki sár né bana.

43

Ár og kveld sem umluktur
eigi held ég ringum
jörmunefldur Játvarður
Jólnis-eldglæringum,

44

Þykir mér hann Þorbergur
þjóta á meri stafna
eilífðarverum umkringdur
eins og geri hrafna.

45

Gjörla þekkja gesti má,
gilda rekka og teita:
Hólabrekku hlýra tvá
hófa-snekkjum beita.

46

Vopnið bjart við hæfi hans
hangir vart á þili,
Rósin- bartan kennir -kranz.
Krúsa í Svartagili.

47

Eldar jafnan ódeigur
- af þó safnist voði
karlinn nafni klofningur
krás að hrafnaboði.

48

Kemur bráðum bíspertur,
brags af dáðum sveittur,
orkufjáður Einarsbur
allur þráðum skreyttur.

49

Fjarða príla fjöllin skal
- frónsk þótt ýli veður
hreinn af tvíli Hannibal
hundruð fýla meður.

50

Efla sór einn aðventist
"alheimskórið" manna,
heitir á Þór og Hvíta-Krist
hann til stórræðanna.

51

Glæstur sýnum, girtur hjör,
gætir línu stækur,
Haukur í Kína hraðar för,
hildar skína brækur.

52

Villi sjáinn setur á
súða-máinn niður,
brimar þá in breiða lá
bölklett háan viður.

53

Burðastórir bragnar hér
bugna stórum hrista:
hugumstór og fríð þar fer
fylking stór-gvendista.

54

Einn sem drósa ávann hrós
uppi í Kjós á dansi,
kvennaljósið Helgi Hós
heilsar Rósinkranzi.

55

Helga kundur Kjartan minn
kempur fundar gleður,
tjörgu-lundur tilbúinn
Týs í hundaveður.

56

Styrjarkæti Stebba Jóh.
stjórnar gætin hyggja,
fjendagrætis ferlegt þjó
fyllir sæti þriggja.

57

Kemur einn með Esjukex
íturhreinn í lundu,
knárri sveinn í rag og rex
reið ei neinn um grundu.

58

Fetar hauður, flokki trúr,
friðar snauður dögum
gamall sauður austan úr
Egils rauða högum.

59

Ótal bragi yrkja kann
undir lagi þýðu,
annað slagið hefir hann
horn í Ægis-síðu.

60

Einhvers staðar unir sér
-allt er það í lagi
fréttamaður Moggans hér,
maskeraður gæji.

61

Stanza hlýt ég eins og er,
annars þrýtur skjalið,
vígra ýta er þó hér
aðeins lítið talið.

---

62

Flytur ræðu Rósinkranz,
rökum fræðir beima,
ennþá glæður orða hans
aldnar skræður geyma:

63

„Lýð í voða lands ég tel,
lög vor troðin niður.
Hefi skoðað hugann vel,
hingað boðað yður.

64

Hér býr þjóð við sultog sút,
samt í góðu landi,
þrotinn móður, keyrð í kút,
kálfs í tjóðurbandi.

65

Forsjá gölluð finnst mér öll,
fæti höllum stöndum,
landsins fjöll og fingramjöll
fast í tröllahöndum.

66

Vondir lúta valdsmenn auð,
virðast mútuþjálir,
labbakútar, kúguð gauð,
keyptar pútusálir.

67

Undir toppi gylltum grær
gljár og snoppufríður,
viljaloppinn, værukær
valtur sjoppulýður.

68

Þröngt í búi orðið er,
öfugt snúið flestu,
þráfallt trúað, því er ver,
þeim, sem ljúga mestu.

69

Fári hnekkja fólks og kvöl,
fást við blekkinguna,
þess er ekki, vinir, völ
vanti þekkinguna.

70

Þannig, sveinar, bátinn ber
brots að hleinum niður.
Skal nú reyna í ræðu hér
ráð mín greina yður:

71

Hrakinn fjanda frá ég heims
félagsbandi þjóða
austur handan öldugeims
- er þar Landið góða.

72

Leyfist ekki á landi og sjó
lýð þar hrekkjum beita,
fornum hlekk í fley og plóg
frelsi og þekking breyta.

73

Þar með lýði viljum vér
vora prýði kanna,
láta síðan loga hér
lausnarstríðið manna.

74

Flytjum sögu um fjöldans megn
Fitumögum nokkrum,
þeim, er lögum þjóðar gegn
þrengja að högum okkrum.

75

Fyrr en haustar hvals á vað
hrindum traustu fleyi.
Drengjum hraustum hæfir að
herja í austurvegi.“

76

Gautar stála góðan róm
gera að máli Rósa.
Brátt er skálin bragar tóm,
bríkin ála-ljósa.

---

77

Fækkar rökum, förlast brá,
fatast tökin snilli.
Sé ég stöku svífa hjá,
svefns og vöku milli.Fjórða ríma

Þeir félagar Rósi sigla til hafs.
Eftir sjóvolk og mannraunir ná þeir
landi hinna miklu fyrirheita.

Mansöngur

1

Púðurdósa seljan svinn,
sólarljós míns hjarta.
Sigri hrósar hugur minn
helzt við rósakoddann þinn.

2

Meyjarblóminn mildi þinn
mig í dróma lykur,
stefja hljómar strengur minn,
stjörnum ljómar himinninn.

3

Nýtum okkar næturgrið,
nælonsokka gerður,
sjafnar þokka saminn frið
sængurstokkinn innan við.

4

Líður gríma, ljósri brá
lyftir skímuvaldur,
sæluvíma þokar þá,
þráðinn rímu finna má.

Ríman

5

Bjarnar njólu nálgast þrot,
Norðra gjólu bani,
atreið sólar, ísabrot,
- er þá kjóli hrint á flot.

6

Drengir vanda mest sem má
marargandinn fríða.
Síðan landi ljúfur frá
leiðisandi rennur á.

7

Heilög goð er heitið á
höldum stoð að veita,
brugðið voðarbandi þá,
brunar gnoðin landi frá.

8

Ýlir reiði, ymur stoð,
ólgar heiði laxa,
alda freyðir undan gnoð,
óskaleiði fyllir voð.

9

Kaldan hjala kinnung við
kólgu svalar dætur,
göltur kjalar greikkar skrið
gjálpardal og bylgjurið.

10

Byrjarfengur nýtist nú,
norðan drengir halda
sels um vengi siglukú,
svona gengur dægur þrjú.

11

Gengur brátt í illa átt,
upphefst þáttur rysju:
Ölduslátt með eðli grátt
elur máttug vindagátt.

12

Undir vakkar ógnin flá,
aldan makka hringar,
yfir hlakka heljarspá
hríðarklakkar lofti á.

13

Svala brýtur boða slóð,
braka hlýtur súðin:
hviða þýtur, fer um flóð
faxi hvítu lagar-stóð.

14

Léttan skoppar ára-önd
öldutoppa kvika,
glævur hoppa, hylur þönd
hríðarloppa sjónarrönd.

15

Hrannir þungan þreyta dans,
þiljulunginn sleikir
gráum tungum gjálpa fans,
gleðst hinn ungi Rósinkranz.

16

Skekin sævar svaka-gný
siglum gnæfa ofar
hrika-ræfur hátt við ský
himinglævu borgum í.

17

Ægisdætur áleitnar
ýtum væta bjórinn,
vindar tæta voðirnar,
verða nætur langdregnar.

18

Ygldur breki, úfin lá,
ógna leku fari,
guma hrekur geyst um sjá,
gefa tekur bátinn á.

19

Bylgjan óð um byrðing tróð,
bila róður náði.
Angurmóð í austri stóð
Ýmisblóði drifin þjóð.

20

Ýmsir krappan sækja sjá,
sumir happi fagna,
margur slappur þykir þá
þegar kappann reynir á:

21

Bænir syngur bugað lið,
brjóstin þyngir tregi,
rekka kringir ráðleysið,
Rósi stingur fótum við.

22

Ívarsson á ufsastorð
eigi dona gjörir.
Frá ég honum fjálgleg orð
færust svona þarna um borð:

23

„Nú þótt æði skaðvæn ský,
skatnar, hræðumst eigi.
Höldum, bræður, horfi í,
hugar glæðum viðbrögð ný.

24

Er með sanni almáttug
eining manna góðra.
Trúum þannig heilum hug
hver á annars þor og dug.

25

Rækjum haus og heilabú,
hæfir dausi fremur
sálmaraus og svikul trú,
svona, ausið piltar nú.”

26

Ýtar finna aukast þrótt,
enginn brynnir músum.
Hertu sinni, hreysti gnótt,
höldar vinna dag og nótt.

27

Víkur hrollur, vænkast ráð,
vættir hollar duga.
Bláum kolli lyftir láð
leiðar sollið yfir gráð.

28

Byrinn hvass í reiða og rá
rymur bassa köldum,
fokku-assan furðu kná
fer með rassaköstum þá.

29

Skjólið hafnar hyggja á
hetjujafnar lúnir.
Fyrir stafni ströndin grá
stígur drafnarkófi frá.

30

Hætta skvettur skaðvænar,
skilar léttar fari
inn í kletta kjörið var,
kólgu sléttir hrukkur þar.

31

Eftir stríðan unnar dans
ofsahríðum laminn
þilju skríður þjór til lands,
þarna bíður fjöldi manns.

32

Þangað lónar lágreistur
lægis prjónastokkur.
Landsins gónir Liðstyrkur,
leggur trjóna kollhúfur.

8

Frónskir siðugt sandi ná,
svo í liði beggja
skýrt án biðar skatnar þá
skiptast friðarmerkjum á.

34

Iðrasekk og sálarhólk
seðja rekkar fegnir,
allir drekka öl og mjólk,
enginn þekkir land né fólk.

35

Karlmannlega verður við
virðulegum beina
eðlilega aðþrengt lið
-ógurlega sjóstaðið.

36

Höldum gagnast hýrlát fljóð,
holdsins magnast styrkur.
Líðan bragna gerist góð,
gestum fagnar heimaþjóð.

37

Margur hriki að veizlu var,
veigarstikill tæmdur,
yfir strikið þjórað þar,
- þá var mikið kvennafar.

---

38

Lykur sanda koldimmt kveld,
kuggur strandi nærri,
sofinn andi, seglin felld,
suttungs landaflaskan geld.

Fimmta ríma

Rósi og hans menn ganga
í lið þeirra Marx og Engels.

Mansöngur

1

Dags við hvin í dumbu skini sólar
set ég fram á sónar vík
Suðra mótorhjólatík.

2

Þrátt með löndum, þar sem bröndur vaka,
fleyti ég minni fornu skeið
fjarri glæstra skipa leið.

3

Lízt mér ei á ljóðafleyi klénu
elta þá, sem óðarsvið
alltaf sækja á dýpstu mið.

4

Inni á grunni uni ég þunnu fangi,
meðan þeir með þanið traf
þrælast út í ballarhaf.

5

Þar í sjó þeir segja nóg til fanga.
Feitur þorskur, flyðran stinn,
- fátt mun þar um hortittinn.

6

Mansöngs þrýtur mærðar skrítinn lopa.
Andlits-farða álkan svinn,
- ekkí meira í þetta sinn.

Ríman

7

Lægir hrotur, linnir roti ölva.
Rekkum kunnur Rósinkranz
rís af sæng og kappar hans.

8

Nú er liðið nærri miðjum degi.
Borð af gnægtum bíða enn
búin fyrir komumenn.

9

Undir borðum beinir orðum Rósi
heimamanns við háborð til,
hæfir því að gera skil:

10

"Tími er nú að tjáir þú oss gestum,
hverja gista höfum ver,
hverjir löndum ráða hér.

11

Landi þvísa og þjóð oss fýsir gjarna
kunnni deili einhver á."
Anzar heimamaður þá:

12

"Hér um slóðir Herjans glóðum beita
kostum búnir kappar tveir,
kallast Marx og Engels þeir.

13

Öðrum meiri eru þeir til víga.
Ber þó yfir alla drótt
einkum þeirra vizku gnótt.

14

Eigi manna meðal fann sinn líka
þeirra kenning, þeirra pund,
þeirra mikla höfðingslund.

15

Þessir mönnum þrótti sönnum boða:
nýja menning, nýjan sið,
nægtir brauðs og þjóðafrið,

16

móti öllu Mammons tröllastóði
baráttunnar bræðralag,
böls og neyðar lokadag.

17

Þeirra her í heimi ber af öðrum,
úrvalsliðar eru þar
allir nefndir Marxistar.

18

Þeirra lag og þeirra fagurt dæmi
langt af öllu öðru ber
áður þekktu á jörðu hér.

19

Ef þeir reynast unna hreinum sefa
sinni eigin siðaskrá,
sverð þeim aldrei granda má.

20

Nú er heimur háttum tveimur svarinn,
lýstur herjum saman senn,
safna liði tröll og menn.

21

Veröld öll úr viðjum trölla
þungum brátt mun verða valdi leyst,
veldi manna á jörðu reist.

22

Gerr skal segja og gesti þeygi leyna:
Marx og Engels allir hér
einum huga lútum vér.

28

Býst nú skjótt vor búadrótt til sennu,
þá mun kænsku og þekking beitt,
þá mun allra krafta neytt.

29

Þakkir kærar þjóð ég færi yðar."
Svo til manna sinna snýr
sýnu máli hauga týr:

30

"Er nú fundin óskastundin þráða
tíl að efna öll vor heit
eða hljóta nafnið geit.

31

Lízt mér ráð að reyna dáð og þegar
flykkjast í hið frækna lið
fyrir þann hinn nýja sið.

32

Hef ég talað, hug minn falið eigi.
Yðvart, frónsku félagar
fýsir mig að heyra svar

33

Frónskir sveinar svara einum rómi
"Marx og Engels afbragðsher
allir fylgja kjósum vér.”

34

Eftir hætti, hollum vættum faldir,
undir votta á eina leið
allir vinna fánaeið.

35

Er svo kneifað eins og leyfir geta.
Mæla hreifir hreystiorð,
hníga kveifar undir borð.

---

36

Stunginn út er stefja grútarkútur,
ei þó dvíni ást til þín,
elda Rínar lína mín.Sjötta ríma

Orrustan mikla hefst.

Mansöngur

1

Geisla bröndum glymur skjár,
ganar öndin morguns ár,
ég af ströndu set til sjár
siglu mönduls húðarklár.

2

Dags í fölva fer á sveim
furðu ölvað kana-geim,
rúða mölvuð, ragn og breim,
röltir bölvað dótið heim.

3

Svona þjóðar siðlæging,
svona hróðug vanmenning,
svona blóðug svívirðing
særir góðan Íslending.

4

Vígabrandi væddum her
vestanfjandi ríkir hér,
vá í landi orðin er,
ærinn vanda að höndum ber.

5

Hófum treður helga slóð
hrunsins gleðikvenna stóð,
seyðið meðan sýpur þjóð,
sumir kveða atómljóð.

6

Margir stanza beggja blands,
brestur glansinn fullhugans,
kjósa bransann konur manns,
kratar dansa Óla skans.

7

Enn ég hljóða af ást til þín,
umgangsskjóðu liljan fín,
mærðarglóðin mansöngs dvín,
morgnar óðum, dúfan mín.

Ríman

8

Austan flýgur árboði,
undan sígur Náttfari,
gellur víga váboði,
vengi stígur Dagfari.

9

Fljótt á kviði Fjörgynjar
fylkt er liði allsherjar,
breitt um sviðið blikeldar
braka friðils Gunnlaðar

10

Herja tveggja höfuð há
heiftar leggja ráðin á,
hróp og eggjan heldur má
heyra beggja liði frá.

11

Óðs í ham, sem úfinn mar,
eigi tamið hugarfar
lætur gaman grána þar,
ganga saman fylkingar.

12

Bila spjarir, blika sverð,
bragna fjarar sundurgerð,
benjaþvara fárs í ferð
finnur ari morgunverð.

13

Verða blauðum blendin grið,
beggja rauðu snýtir lið,
logar hauður, löðrar svið,
líf og dauði eigast við.

14

Há með sköll og froðuföll,
fjörs við spjöll sem lausamjöll
gróinn völlinn vaða tröll,
vígaböllum duna fjöll.

15

Fremja skvaldur forn og ný
finnagaldurs leiguþý,
þursavald með bál og blý
bítur skjaldarendur í.

16

Ýmsir tvíla, er þeir sjá
ótal grýlur fara á stjá,
sumir gýligjafir fá,
gjarnt að hvílast mundi þá.

17

Furðu skjótt í fleinaþrá
fjarar þróttur sutnum hjá,
leiðir óttans, lúskri frá,
leggur flótta margur á.

18

Oss í móti andherjar
örvum skjóta spillingar,
mikinn þjóta markviss þar
mútuspjót og bitlingar.

19

Marga slævir málsverður,
marga gæfan sniðgengur,
marga svæfir meðvindur,
margan hæfir bitlingur.

20

Sumir missa sjálfsagann,
sumum vissa bregðast kann,
sumir pissa á sannleikann,
sumir kyssa meistarann.

21

Sumir spjara sig á ný,
sumir hjara nauðum í,
sumir fara í sumarfrí,
sumir bara á fyllirí.

22

Sumir hanga í söðli þó,
sumir spranga á hundamó,
suma fangar síðdagsró,
sumir ganga í Oddfelló.

23

Sumum mikil svíða kaun,
sumir hika þó ei baun,
sumum þykja síðgreidd laun,
sumum hnikar engin raun.

24

Sumum þeygi sókn er greið,
suma beygja örlög reið,
sumir þreyja í sárri neyð,
sumir deyja á réttri leið.

25

Firðum ei til fagnaðar
fölvar teygja álkurnar
æði deigir álengdar
aulalegir stælgæjar.

26

Hringa meiður margur þá
- maður greiður hjörs í þrá -
styrjarheiði úrgri á
eigi seiðinn þola má:

27

Ærist drengur, undur téð
órafengið trufla geð,
fær ei lengur sína séð,
svo hann gengur fjendum með.

28

Nú sem blífur bardaginn
-bragna hlíf er einhuginn
Hárs of drífan harðnar stinn
herinn klýfur nafni minn.

29

Stríðs á velli víðum skjótt
vítis bellur kúlna-gnótt,
ógnir hrella alheimsdrótt,
yfir skellur fimbulnótt.

30

Fæst nú hver við fjanda sinn,
fram um þveran stríðsvanginn
mjökumst vér, þótt mórallinn
margra gerist tröllriðinn.

31

Myrkvast dögun brigðisbyl,
bregður slögum nornaspil,
verða í sögu vatnaskil,
víkur bögum Rósa til.

32

Stáls í hreggi ærið ör,
afli seggja fjögra gjör,
ýmist heggur álmabör
eða leggur björtum hjör.

33

Leikur mund af lífi og sál,
lagið grundað, forðast tál,
hamin lund sem laufans stál,
logar undir hjartans bál.

34

Frá sér ýtir flærðarskál,
fyrirlítur undirmál,
geð ei bítur gull né stál,
gefur skít í hefðarprjál.

35

Allra liggja örlög við;
eitt skal tryggja stefnumið,
aldrei hyggja á einkafrið,
eigi þiggja smánargrið.

36

Eins og sögur inna frá:
Ívars mögur styrjarljá
knýr, sem fögur sverð að sjá
sindri fjögur lofti á.

37

Óttast margur atgang hans,
undrast margur knáleik hans,
forðast margur fótbít hans,
fylgir margur dæmi hans.

38

Seggir fleiri sækja á
sem ei meira greinir frá,
lokin dreyrug fjendur fá,
falla þeir sem ýlustrá.

39

Ótal gerast undur þá,
ýmsa ber að höndum vá,
þruma fer um land og lá,
líkt og tér hin forna spá:

40

Nagar í þaula níðhöggur,
nálega raular hræsvelgur,
kátlega gaular kveldúlfur,
kynlega baular heimdallur.

41

Æða stormar, úfnar hlér,
eigi dormar hrönn við sker,
margt úr formum molna fer,
miðgarðsormur byltir sér.

42

Heljar glennir gin sitt nóg,
gráðugt spennir Ýmisþjó
argur fenrisúlfur kló
-og nú rennur Stebbi Jóh.

43

Þó að lengi lausnarbið
- loka strengi mótviðrið
sífellt drengja sækir lið,
sagan gengur fram á við.

44

Sofinn maður, sjálfum þér
sækir að hinn glæsti her:
Vestur hraðar vorið sér,
víkur hvað sem fyrir er.

45

Hlés í roða höllunum
hringir voðinn bjöllunum,
steypast goð af stöllunum
stríðs í boðaföllunum.

46

Múrinn hrynur myrkravalds,
magnast dynur austantjalds,
ofan í ginið grýluhvals
geysast synir Hannibals.

47

Renna tröll úr rétti manns
roðar Fjöllin sólarglans,
stikar völlinn, stígur dans
styrjarhnöllum Rósinkranz.

48

Afl og þekking fundizt fá,
fals og blekking þoka frá,
bresta hlekkir, blindir sjá,
Báleygs ekkja fagnar þá.

---

49

Svona fróðum segist frá,
sem í glóðum hildar stá,
svona hljóðar heiðin spá,
-henni þjóðin treysta má.

50

Sagan tygjar sóknargand,
sviðið vígja líf og grand,
belgi nýja ber á land
brims í gný við rauðan sand.

51

Munu renna tunglin tvenn,
tímans brenna kerti þrenn,
fyrr en kenni friðar menn,
ferleg sennan stendur enn.

---

52

Hægir róður hrönnum á,
hlægir móðan strönd að ná,
ægis glóða foldum frá
fæ ég ljóðagjöldin smá.