Jón var fjórða barn Rafns Júlíusar Símonarsonar og Guðrúnar Gísladóttur, fæddist 6. mars 1999 að Vindheimi á Norðfirði. Þau hjón, Rafn og Guðrún, áttu saman 10 börn. Hálfbróðir Jóns og alnafni fæddur 1885 í Skagafirði var gjarnan nefndur Jón eldri Rafnsson til aðgreiningar.

Fjölskyldan flutti frá Norðfirði til Reykjavíkur árið 1903. Rafn stundaði útgerð eystra og sat í hreppsnefnd Norðfjarðarhrepps um það leyti sem þau fluttu.1 Kann heilsuleysi Guðrúnar að hafa ráðið einhverju um búferlin.2 Í Reykjavík fékkst Rafn Júlíus við steinsmíði og grjóthögg og er getið í Múraratali.

Rafn Júlíus Símonarson og Guðrún Gísaldóttir og börn árið 1909

Þessi mynd er tekin í Reykjavík, að öllum líkindum árið 1909, eða um það leyti sem fjölskyldan að frátöldum Jóni eldra flyst til Grundarfjarðar. Söguhetja vor sér eitthvað fyndið sem virðist fara fram hjá öðrum. Frá vinstri: Jón, Arnfríður, Guðrún Gísladóttir með Erlend, Rafn Júlíus Símonarson, Gísli, Helga, Jón eldri, Guðrún eldri, Sigríður og Jóhann.

Jón mundi fyrst eftir sér austur í sveitum hjá móðurfólki sínu, en Guðrún átti frændfólk í Grímsnesi og Biskupstungum. Voru þeir bræður Jón og Gísli þar í barnæsku og Gísli aftur um tíma eftir lát móður þeirra. Fjölskyldan flutti til Grundarfjarðar árið 1909 þar sem Rafn stundaði sjó á eigin báti frá Framnesi í Grafarnesi. Rafn orti:

Nú er leiði laust við neyð
lýra freyðir jörðin,
rennur skeiðin skrefagreið
skjótt inn Breiðafjörðinn.

En meðbyrinn entist ekki Rafni þar vestra. Hann missti bátinn og Guðrún lést 5. janúar 1912. Sundraðist þá systkinahópurinn, átta talsins eftirlifandi. Hjónin Jón Lárusson og Helga Gróa Sigurðardóttir að Gröf í Grundarfirði tóku við Jóni. Fór vel um Jón hjá þessu fólki og var Grundarfjörðurinn honum ávallt kær. 3

Húsmóðirin í Gröf var ljóðelsk og áttu þau fóstursonurinn skap saman. Til er póstkort frá Laufeyju, dóttur hjónanna í Gröf þar sem vísnagerð Jóns kemur við sögu. Póstkortið er ódagsett en líklega frá því í desember 1912. Jón þá þrettán ára.

Póstkort til Jóns Rafnssonar að Gröf í Grundarfirði

Sunnuhvoli

Kæri litli nonni minn

Mér finnst ég mega til með að senda þessa línu, ég skrifa Lalla bróðir á korti og set þetta með. Ég óska þér gleðilegra jóla og nýtt ár. Ég óska oft þegar ég sé Vísir að hann væri kominn til ykkar mömmu því það eru svo oft vísur sem á að botna og svo er þeim heitið verðlaunum sem sendir besta botninn, ég skal vera viss um að þú reyndir ekki satt? Jæja nonni minn bara þú værir kominn suður litla stund, nú þann 7. þ.m. kemur Gísli bróðir þinn. Ég hitti Helgu litlu systir þína í gær og sagði hún mér þetta, líka spurði ég hana eftir Siggu og sagði hún mér að hún hefði það gott. Gaman væri að fá línu frá þér og vísu líka. Þú gerir þetta.Vertu svo sem best kvaddur og líði þér sem best. Þess óskar
Laufey Jónsdóttir.

Eftir lát Guðrúnar flutti Rafn fyrst til Reykjavíkur en síðan aftur til Norðfjarðar árið 1916. Rafn reyndi fyrir sér með útgerð líkt og hann gerði áratug áður en þar voru nú fyrir stórbændur í útgerð og verslun og átti Rafn erfiðar uppdráttar en fyrrum.4 Jón kom til Norðfjarðar 1917 til liðs við föður sinn og systkyni. Þeir feðgar sóttu vetrarvertíð í Eyjum og Helga Rafnsdóttir flutti til Eyja 1918.5 Helga giftist þar Ísleifi Högnasyni sem rak kaupfélagið Drífanda. Ísleifur varð síðar einn helsti forystumaður kommúnista í Eyjum.

Sumarið 1922 gerðist Jón formaður hins nýstofnaða Verkalýðsfélags Norðfjarðar 6, innblásinn af Ólafi Friðrikssyni sem kveikti elda róttækni í brjóstum ungs fólks á þessum árum. En í lok árs 1923 flutti Jón til Vestmannaeyja og Rafn skömmu síðar. Jónas Guðmundsson, sem tók við forystu í Verkalýðsfélaginu segir í blaðaviðtölum 7 að Jón hafi verið hrakinn frá Norðfirði, útilokaður frá vinnu. Jón nefnir þetta ekki í Vori í verum, en kynnist frá upphafi eðli réttindabaráttunnar.

Á Austfjörðum var þessi ár öflugt félagsstarf á vegum I.O.G.T. og Ingi T. Lárusson hélt þar uppi sönglífi. Jón tók þátt í hvorutveggja sem hefur eflaust nýst honum síðar. Munnleg heimild er um að menn hafi á þessum tíma boðist til að kosta Jón til tónlistarnáms en Rafn sagt að líklega gengi mönnum það helst til að losna við Jón úr verkalýðspólitíkinni. Í Vori verum segir : „[..] skipa þá önnur mál öndvegi í huga mínum en verkalýðsmál og stjórnmál.” Fylgja því ekki frekari skýringar. 8

En örlög Jóns Rafnssonar voru ráðin. Sem forsprakki í verkalýðsfélagi tók hann að kynna sér bækur um sósíalisma og umbótastefnur. 9

Næsti kafli: Berklarnir

Annar örlagavaldur í lífi Jóns voru berklarnir. Alls dóu fjögur systkinanna úr berklum. Jón veiktist 1929. Þá höfðu tveir bræður hans fallið í valinn, Erlendur 1922 og Gísli 1926. Gísli Rafnsson, sem var 3 árum eldri en Jón og góður glímumaður, kenndi berklanna eftir Ármannsglímuna 1920.

Í fyrsta tölublaði Berklavarnar 1, vitnar Jón í Þorstein drómund þegar hann segir við Gretti, sem fannst bróðir sinn ekki líklegur til stórræða: „Vera má það, en þó skaltu það vita að þessir hinir mjóu handleggir munu þín hefna, ella mun þér aldrei hefnt verða”.

Ekki nefnir Jón sinn eigin bróðurmissi en fékk síðar gullmerki S.Í.B.S.- hið fyrsta sem veitt var – fyrir störf í þágu berklasjúklinga.

Jón dvaldi um tíma á berklahælum á fjórða áratugnum, vann að stofnun S.Í.B.S. og var í fyrstu stjórn þess, 1938.

Guðfinna Gísaldóttir á sjúkrabeði Gísla Rafnsonar


Guðfinna Gísladóttir, móðursystir þeirra systkina, barna Rafns og Guðrúnar, er hér við sjúkrabeð Gísla Rafnssonar.
Guðfinna var þeim systkinum stoð eftir móðurmissinn. Jón var um tíma eftir 1939 skráður til heimilis hjá Guðfinnu í Reykjavík.

Næsti kafli: Í Eyjum

Vestmannaeyjar urðu heimabær Jóns eftir 1923 og þar átti hann mörg sín bestu ár. „Hann var maðurinn sem aldrei brást, hann var mesti bardagamaður alþýðunnar í Eyjum. Hann var hættulegasti áróðursmaður á Íslandi - hann gat jafnvel snúið yfirvaldinu á Tindastóli, Ástþóri og Kolka til kommúnisma.[..]Hann talaði af andagift og snilli á landsmálafundum og kvað karla eins og Jónas og Eystein í kútinn [..] Hann hefði getað orðið meira skáld en öll ung skáld í dag en hann kaus að berjast fyrir alþýðuna með brandi skipulagsgáfu sinnar” 1 skrifaði Árni úr Eyjum í Þjóðviljann á fimmtugsafmæli Jóns 1949.

Ástþór Matthíasson og Páll V.G. Kolka, báðir í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Eyjum, voru um tíma í Sovétvinafélaginu eða þar til Jóhann Þ. Jósefsson tók þá til bæna segir efnislega í Ævisögu Einars ríka.2 Er líklegt að Árni vísi m.a. til þess.

Jón Rafnsson og verkafólk í Eyjum

Jón, fyrir miðju, í hópi verkafólks í Vestmannaeyjum ca 1932.

Jón ætlaði sér að taka skipstjórnarpróf en varð að hætta við þau áform vegna litblindu, lærði þá til mótorista og stundaði sjómennsku með öðru fram undir 1930.

„[..] dásamleg heppni” segir í skilmerkilegri frétt Morgunblaðsins 16. október 1928, þegar áhöfn bjargaðist naumlega af m.b. Leó, brennandi út af Öndverðarnesi 3. Eru tveir nafngreindir af áhöfninni, Guðmundur Kristjánsson skipstjóri og Jón Rafnsson vélstjóri. Guðmundur var baráttufélagi Jóns í Eyjum og um tíma formaður Sjómannafélags Vestmannaeyja. Önnur tóntegund einkenndi þó oft fréttaflutning Morgunblaðsins af af þeim Vestmanneyjabolsum.

Í afmælisgrein um Brynjólf Bjarnason 1948 4 segir Jón frá því þegar þeir félagar fyrst hittust. Jón var þá á togara frá Reykjavík 5 og hitti Brynjólf á Litla kaffi í höfuðstaðnum haustið 1925. Tókst þar vinátta milli hins sjálfmenntaða og skólagengna kommúnista.

Af skrifum Jóns má ráða í metnaðarmál þeirra félaga: „Margur hefur beinlínis ekki þolað ofbirtu hagnaðarmöguleikanna fyrir eigin pyngju, þegar á þing var komið, ekki getað neitað sér um að eignast einkamál í félagi við þá ríku, gerast ‚fínn maður′, - og leiðzt út í að beita hæfileikum sínum í það að halda um sig blekktu kjörfylgi, til að halda sér í verði hjá andstæðingunum [..] Brynjólfur var ekki verkalýðsfulltrúi af þessu tagi.“

Þegar Jón flutti frá Norðfirði til Eyja síðla árs 1923 voru nýafstaðnir landsmálafundir fyrir þingkosningarnar það ár. Átrúnaðargoð ungra jafnaðarmanna um þær mundir og frambjóðandi Alþýðuflokksins í Eyjum, Ólafur Friðriksson, fór þar á kostum.

Þá brá svo við að Alþýðuflokkurinn dró framboð Ólafs til baka og var stuðningsfólk Alþýðuflokksins hvatt til að styðja fulltrúa Framsóknarflokksins.

Þessi umskipti urðu róttæku stuðningsfólki Alþýðuflokksins vonbrigði og forboði ágreinings sem síðar varð í samskiptum þess við flokksforystuna. Rannsóknir Þorleifs Friðrikssonar sýna að framboð Ólafs var dregið til baka að undirlagi danskra sósíaldemókrata, sem vildu stemma stigu við áhrifum kommúnista í Alþýðuflokknum.6

Skömmu eftir komuna til Eyja fékk Jón nokkra kunningja sína um tvítugt með sér í „kommúnistafélag”, Kuflunga, sem hleypti miklu lífi starfsemi verkalýðsfélagsins Drífanda. Kuflungar fengu m.a. ráðið vali fulltrúa á þing A.S.Í. haustið 1924 7. Árið 1952 skrifaði Jón minningargrein um vin sinn frá þessum tíma, Guðmund Ólafsson. Gefa eftirmælin innsýn í hugarheim Kuflunga.8

Þegar Eyjablaðið kom fyrst út 1926 var Jón þar í ritstjórn og haustið 1926 í hópi fulltrúa á sögulegu þingi Alþýðusambandsins. Sama ár gengust Jón og félagar hans fyrir stofnun Sjómannafélags Vestmannaeyja. Var Jón ritari í fyrstu stjórn þess.9

Vestmannaeyjar urðu nú ásamt Akureyri og Siglufirði höfuðvígi kommúnistanna, sem farnir voru að ókyrrast í Alþýðuflokknum. Réðu kommúnistar mestu í verkalýðsfélögum Eyjanna fram til þess að samfylkingarstefnan tók við um miðjan fjórða áratuginn.10

Því fór fjarri að hinir ungu og vígreifu kommúnistar væru í uppáhaldi hjá forystu Alþýðuflokksins. Hún var háð fjárstuðningi skandinavískra krata sem höfðu þá dagskipan að úthýsa kommúnistum úr verkalýðshreyfingunni.11

Alþýðuflokkurinn studdi einnig stjórn Framsóknarflokkins frá 1927 og fékk hlutdeild í landsstjórninni, væntanlega út á flest annað en ólæti í boðinu. „ [..]hefst nú tímabil vaxandi metorða og mannvirðinga í foringjaliði okkar. Þeir verða nú skyndilega háttsettir menn í þjóðfélaginu: bankaráðsmenn, bankastjórar o.þ.u.l. – Þeir verða hrókar alls fagnaðar í öllum hugsanlegum nefndum og fá hina langþráðu ‚aðstöðu′ í opinberu lífi til að vinna að áhugamálunum.” segir í Vori í verum um stöðuna eftir þing A.S.Í. 1926.12

Í lok árs 1929 hrundu kommúnistar í Eyjum tilraun hægri krata til að ná yfirráðum í Verkalýðsfélaginu Drífanda og í byrjun árs 1930 lögðu þeir í tvísýnar verkfallsaðgerðir, Saltslaginn svonefnda, með klofningslið á móti sér sem gerði tilkall til forráða í félaginu. Eftir nokkurn tvístíganda viðurkenndi Alþýðusambandið formennsku Jóns í Drífanda. Ráðamönnum var þó ekki betur skemmt en svo að Jóni var sagt upp starfi við Skipaafgreiðslu ríkisins þar í Eyjum strax eftir að átökum lauk.13

Landstjórnin virðist raunar úthluta embættum af nokkurri fyrirhyggju. „Hin pólitíska sambúð Framsóknar og Alþýðuflokks er nú að komast á blómaskeið, þótt þar kenni þyrna á rósum. Á veg Alþýðuflokksforingjanna og nánustu samverkamanna þeirra fellur nú gnótt pólitískra bitlinga ofan úr hæðum ríkisvaldsins, eins og regnskúrir í þyrsta gróðurmold. Og Framsókn uppsker oftast eins og til er sáð. Það hendir þó, að á einstaka vinstrimann Alþýðuflokksins hrekkur biti eða spónn og missir marks. Ísleifur Högnason fær þá til dæmis í hendur umboð fyrir Áfengisverslun ríkisins þar í Eyjum og Einar Olgeirsson er sem Alþýðuflokksmaður skipaður einn af forstjórum Síldareinkasölu ríkisins. Þessi rausn valdhafanna rennur í óvæntan farveg, því Ísleifur notar hagnaðinn af áfengissölunni til að halda út blaði fyrir alþýðuna í Vestmannaeyjum og stéttarsamtök hennar. En Einar notar hin auknu auraráð sín til að kaupa og gefa út [tímaritið] ‚Rétt′ og breiða út kenningar sósíalismans.”, skrifar Jón í Vori í verum.14

Jón var víða á ferð árið 1930. Í júní skipulagði hann með félögum sínum árangursríkt verkafall norður í Krossanesi og um miðjan ágúst sat hann 5. þing Rauða verkamannasambandsins, Profintern, í Moskvu. Um haustið var svo átakasamt Alþýðusambandsþing og stofnun kommúnistaflokks. Næsta áratug eða svo var hann á ferð og flugi um land allt þó hann hefði skráð heimili í Eyjum.

Til er vísa eftir Rafn Júlíus (d.1933) sem átt gæti við son hans:

Huganum ekki höfin breið
haldið geta í stilli,
honum er því léttfær leið
lands og Eyja á milli.

Jón við byggingu Alþýðuhússins í Eyjum



Sumarið 1929 reis Alþýðuhúsið í Eyjum og var Jón þar verkstjóri og umsjónarmaður. „aldrei fyrr né síðar hef ég séð glæsilegra dæmi einhugar og fórnfýsi en hin róttæka alþýða Eyjanna sýndi þá. Þykist ég þó hafa séð margt gott af því tagi um dagana” segir í Vori í verum.15



Þessi mynd af Jóni er tekin á lokasprettinum við frágang Alþýðuhússins í Vestmannaeyjum. Nokkru síðar kenndi Jón berklanna, fékk blóðspýting úti í sjó.

Næsti kafli: Kommúnistaflokkur sannar sig

Þing Alþýðusambandsins haustið 1926 gerði kommúnistana í Alþýðuflokknum afturreka með hugmyndir þeirra um verkalýðssamband óháð flokksaðild. En Alþýðusambandið var frá stofnun þess árið 1916 skipulagslega samofið Alþýðuflokknum.

Þá samþykkti þingið að sækja um aðild að hinu sósíaldemókratíska Öðru alþjóðasambandi verkalýðssambanda. Hugmyndir vinstra armsins um hagsmunabaráttu óháða flokkapólitík, komu hins vegar úr smiðju Profintern, fagsamtaka Alþjóðasambands kommúnista, sem þeir höfðu verið í tengslum við allt frá 1920.1

Kommúnistar boðuðu nú stofnun flokks en fóru ekki ótilneyddir úr Alþýðusambandinu.2 Þeir voru þó undir ýmislegt búnir þegar endanlega sauð upp úr á sambandsþinginu 1930 og tengsl Alþýðusambandsins við Alþýðuflokkinn voru innsigluð með svofelldri samþykkt: „Kjörgengi fulltrúa í fulltrúaráð, á fjórðungsþing, sambandsþing og aðrar ráðstefnur innan sambandsins, svo og í opinberar trúnaðarstöður fyrir sambandsins eða flokksins hönd, er bundið við að fulltrúinn sé Alþýðuflokksmaður og tilheyri engum öðrum stjórnmálflokki.” 3

Aðalhöfundur þessarar gagnorðu klausu, 14. greinarinnar, var Héðinn Valdimarsson. Kaldhæðni örlaganna hagaði því þannig að Héðinn stóð síðar að því með kommúnistunum að afnema flokkseinokunina í Alþýðusambandinu. En Héðinn var sjálfur útilokaður frá Sambandsþinginu 1938 eins og komið verður að.

Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður áður en þingi A.S.Í. lauk eða 29. nóvember 1930 og var deild í Alþjóðasamtökum kommúnista, Komintern.

Flokksskírteini Jóns í K.F.Í.

Flokksskírteini Jóns í K.F.Í.

Af skírteininu má sjá að gert hefur verið ráð fyrir framlögum félaganna til Alþjóðasambands kommúnista.

Þór Whitehead segir um stöðuna eftir þing A.S.Í. 1932, sem nú úthýsti kommúnistunum:
„Stefna sú sem Alþýðusambandsforystan virðist nú hafa tekið miðaði að því að gera kommúnista útlæga úr verkalýðshreyfingunni. Fyrsta skrefið í þessa átt var að halda þeim félögum, sem kommúnistar réðu, utan heildarsamtakanna. Annað skrefið var að kljúfa þessi félög og ná þannig af þeim samningsréttinum við atvinnurekendur. [Klofningsfélögin, oft sárafámenn, voru síðan tekin í Alþýðusambandið og kröfðust samningsréttar] [..]Tækist þetta herbragð hlaut Kommúnistaflokkur Íslands að missa öll áhrif í stjórnmálum landsins og einangrast sem smáklíka” .4

Tók nú við barátta kommúnistanna fyrir tilverurétti sínum í verkalýðshreyfingunni.

Í áróðursferð um Norðurland 1932

Í áróðursferð um Norðurland 1932. F.v. Gunnar Benediktsson, Jón Rafnsson, Einar Olgeirsson, Jón Guðmann, Einar Þorfinnsson.

Jón var á þessum árum erindreki Kommúnistaflokksins í vinnudeilum og á útbreiðslufundum um mestallt landið.

Jón talar af vörubílspalli í Novudeilunni Jón talar af bílpalli í Novudeilunni

Af þeim átökum sem eftir fóru er Novudeilan á Akureyri í mars 1933 hvað frægust. Verkamannafélag Akureyrar, sem kommúnistar stjórnuðu, deildi þar við bæjaryfirvöld, sem tóku yfir rekstur tunnuverksmiðju í atvinnubótaskini og buðu ákvæðisvinnutaxta sem var langt undir taxta félagsins.5 Þegar leið á deiluna var stofnað klofningsfélag með tilstyrk um fjórðungs félagsmanna.6 Alþýðusambandið veitti því félagi strax aðild en vék Verkamannafélagi Akureyrar úr sambandinu. Klofningsfélagið bauðst síðan til að ganga að tilboði bæjaryfirvalda.

Þanning átti að sniðganga samningsrétt Verkamannafélags Akureyrar. Var nú að hrökkva eða stökkva. Félagið brást við með því að lýsa yfir afgreiðslubanni á e.s. Novu sem var væntanleg með tunnuefni. „Með sundraðar raðir verkamanna, fjandsamlegt Alþýðusamband og alla stjórnmálaflokka gegn sér, nema hinn unga kommúnistaflokk, virðist aðstaða Verkamannafélags Akureyrar harla erfið” segir í Vori í verum þar sem átökin eru ítarlega rakin. En kommúnistum tókst að fá bæjarbúa með sér og vinna frækinn sigur.

Flugrit frá Novudeilunni

Flugrit frá Novudeilunni (úr skjölum Jóns Rafnssonar)

Þór Whitehead lýsir niðurstöðu Novudeilunar þannig: „En á ellefta degi frá áflogunum norðanlands hrósuðu kommúnistar sigri. Bæjarstjórn Akureyrar ritaði undir samning um tunnusmíði við Verkamannafélag Akureyrar samkvæmt taxta félagsins. [Klofningsfélagið] var kæft í fæðingu, og Alþýðusambandið var knésett. Sambandsstjórninni hafði mistekizt að einangra kommúnista [..]Úrslitum réð tryggð fólksins við kommúnistana í Verkamannafélagi Akureyrar og góð skipulagning þeirra að ógleymdum vanmætti ríkisins.” 7

Þvert á sátt deiluaðila var Jón fangelsaður eftir að átökunum lauk. Reyndist það stutt gaman samkvæmt fjörlegri lýsingu Jóns í Vori í verum. Dreif fljótlega að mannfjölda og talaði Einar Olgeirsson þar „yfir hausamótum réttvísinnar”, sem sá þann kost vænstan að láta Jón lausan. 8

Aftur kom til átaka nyrðra vorið 1934, þegar Lagarfoss var afgreiddur á Borðeyri í banni verkalýðsfélagsins á staðnum. Verkalýðssamband Norðurlands (VSN) lýsti þegar yfir löndunarbanni á Lagarfoss. Í framhaldinu urðu heiftarleg átök á Siglufirði og á Akureyri. Jón var enn mættur á Akureyri.

Átakalínur voru þær sömu og í Novudeilunni, þ.e. kommúnistar börðust þar gegn Alþýðusambandinu, klofningsfélagi þess og áróðursvél borgaraflokkanna. Að veði var tilveruréttur þeirra í verkalýðshreyfingunni. Andstæðingar kommúnista voru nú betur undirbúnir en í Novudeilunni og hafði lögreglan með sér harðsnúið aðstoðarlið – þar með talið nokkra þekkta nasista. „En þarna eru líka ýmsir menn áður ókunnir að illu. Hér eru og komnir nokkrir sveitamenn úr nágrenninu” skrifar Jón, tilbúinn að setja sig í spor andstæðinganna.9

Eftir nokkur átök og fangelsun þeirra Jóns og Jakobs Árnasonar tókst að mestu að landa úr Lagarfossi á Akureyri. En á leið sinni austur um land fékk skipið ekki afgreiðslu á Húsavík og Eskifirði.

Yfirvöld virðast ekki hafa treysts til að halda þeim félögum föngnum og voru þeir látnir lausir að kveldi sama dags. Þeir voru ekki fyrr sloppnir út en við tók undirbúningur fyrir móttöku Dettifoss daginn eftir, 12. maí. Hafði áður tekist að hindra afgreiðslu skipsins á Siglufirði.

Á Akureyri náði liðssveit kommúnista að halda aðalbryggjunni við Torfunes. Dettifoss var þá afgreiddur við Tuliníusarbryggju. Skipið hélt síðan til Sigufjarðar í annað sinn. Í þetta sinn tókst að landa úr skipinu á Siglufirði eftir blóðug átök.

Eftir sem áður var ljóst kommúnistarnir yrðu ekki yfirbugaðir og lauk deilunni þannig að undirritaðir voru samningar milli Kaupfélagsins á Borðeyri og VSN, sem fékk samningsrétt sinn þar með viðurkenndan - þrátt fyrir bannfæringu Alþýðusambandsins.10

„Til þess að geta metið rétt hið mikla afrek norðlenzks verkalýðs, verður einkum að hafa þetta huga: Baráttan snýst ekki um kaup og kjör þeirra, sem í mesta eldinum standa og úrslitum ráða. Þetta er [samstöðu-] barátta til að knýja fram samningsrétt fámenns, nýstofnaðs verkalýðsfélags á útjaðri landsfjórungsins” , segir í Vori í verum.11

Og Þór Whitehead lýsir stöðunni eftir Borðeyrardeiluna með svofelldum hætti: „Kommúnistar gengu þannig sem sigurvegarar frá báðum þessum örlagaríku deilum. Þeir höfðu nú tryggt völd sín í verkalýðshreyfingunni, þaðan var þeim ekki ýtt til hliðar. Kommúnistaflokkurinn hafði forðað sér frá þeirri útlegð, sem Alþýðusambandsforystan hafði ætlað honum.” 12

Stefna kommúnistanna um hagsmunabaráttu óháða flokkspólitík fékk nú vaxandi meðbyr. Í Vori í verum segir:
„Hér með eru vinstri öflin í íslenskri verkalýðshreyfingu og Kommúnistaflokkurinn orðin að stærð sem reikna verður með [..] Og samfylkingin styrkist með ári hverju. Að kljúfa verkalýðsfélög er jafnvel orðin haldlítil ráðstöfun fyrir hægri öflin [.. fólk] tekur bara höndum saman um hagsmunamálin án tillits til þess hvort þessi eða hinn er í gamla félaginu eða því nýja [..] Þvert ofan í bann ráðamanna Alþýðuflokks og Alþýðusambands eru verkalýðsfélög A.S.Í. farin að ljá máls á samstarfi við þau verkalýðsfélög er lúta róttækri forystu.”13

Átökin norðanlands urðu kveikjan að því að formaður stjórnar Eimskipafélagsins, Eggert Claessen, gekkst fyrir stofnun Vinnuveitendafélagas Íslands í samvinnu við þá Thors-bræður. Segir frá því í bók Guðmundar Magnússonar, Thorsararnir.14

Næsti kafli: Bankahrun og fangelsanir

Áður en tímabil Kommúnistaflokksins er kvatt er rétt að nefna önnur átök sem Jón kom við fjórða áratuginn. Í bakgrunni eru umdeildar ráðstafanir í bankamálum, atvinnuleysi og örbirgð kreppunnar.

Í byrjun febrúar 1930, vertíðarbyrjun, fór Íslandsbanki í þrot en atvinnustarfsemi víða um land var þar í viðskiptum. Þegar bankastjórar Íslandsbanka leituðu til Alþingis eftir ríkisábyrgð, að viðlagðri lokun bankans næsta dag, skrifaði Jónas Jónsson, þáverandi dómsmálaráðherra, í Tímann: „Fyrstu árás þeirra, sem vilja koma skuldasúpu Íslandsbanka yfir á alla borgara landsins var nú hrundið [..]Íhaldsmenn eru enn ekki vonlausir um, að þeim takist að koma snörunni hægt og hægt á þjóðina[..] Vel getur verið að svo fari enn. [..] En það getur líka verið, að endurreisn íslenzkra fjármála sé í þann veginn að gerast á hinu sögufræga ári, sem nú er nýbyrjað.” 1

Skrif Jónasar eru ekki síður athyglisverð fyrir það að flokksbróðir hans og forsætisráðherra, Tryggvi Þórhallsson, var formaður bankaráðs Íslandsbanka um þetta leyti. En það fyrirkomulag var haft að forsætisráðherra og nokkrir þingmenn þágu laun og premíur fyrir - að því er virðist - rænulita setu í stjórn einkabankans.2

Þótt Alþingi hafnaði ríkisábyrgð í þessari atrennu, var sú bjartsýni íhaldsmanna sem Jónas nefnir í greininni ekki með öllu ástæðulaus. Sjálfstæðismenn reyndust hafa ítök meðal flokksfélaga hans. Það virðist eiga við um Ásgeir Ásgeirsson, sem Alþýðublaðið sagði hafa „nýlega fengið mjög hagkvæma samninga við Íslandsbanka um skuldir sínar þar”. Þessi frétt Alþýðublaðsins var í dálki með skipafréttum, fundarboðum og öðrum vanagangi og ekki sett í annað samhengi.3

Eftir stutt þref var í byrjun mars þetta ár, 1930, stofnaður Útvegsbanki Íslands h.f. sem tók yfir skuldir Íslandsbanka. Hinn nýji eða nafnbreytti 4 banki, Útvegsbankinn, fékk Jón Baldvinsson, forseta Alþýðusambandsins í stól bankastjóra og aðrir forkólfar Alþýðuflokksins settust þar í bankaráð sem og í bankaráð Landsbanka.5

Þegar Útvegsbankinn komst síðan í fyrirsjánlegt þrot 6, strax í upphafi árs 1932, ábyrgðist ríkið allar innistæður bankans – nú án mótatkvæða þingmanna Alþýðuflokks.7 Fékk ríkisábyrgðin litla athygli í Tímanum og Alþýðublaðinu að þessu sinni, ólíkt „Æðaslætti óreiðunnar” 8 í Íslandsbanka tæpum tveim árum áður. Ekki var t.d. lengur haft í flimtingum að vanheimt útlán Íslandsbanka hefðu m.a. óbeint runnið til flokksblaða Sjálfstæðisflokksins.9

Blöð kommúnista, Verklýðsblaðið og Verkamaðurinn á Akureyri, virðast nú ein um að gagnrýna ríkisábyrgðina. Auk áðurnefndra blaða og Morgunblaðsins var í Reykjavík gefið út síðdegisblað, Vísir. Aðaleigandi þess og pólitískur ritstjóri var þá Jakob Möller, fyrsti þingmaður Reykjavíkur og bankaeftirlitsmaður. 10

Brautin, vikurit, gefið út af „nokkrum konum í Reykjavík” kom ekki lengur út þegar hér var komið. Í síðasta tölublaði Brautarinnar, 14.2.1930, var úttekt á Íslandsbankamálinu. Helst er að sjá að konurnar hafi það sameiginlegt með kommúnistum að standa utan valdastéttarinnar: „Bankaráð og bankaeftirlitsmaður hljóta einnig [auk bankastjóranna] að fá mjög þungan dóm hjá þjóðinni. [Þeir hafa] sýnt í öllu sama sauðarskapinn, ábyrgðarleysið og kæruleysið, sem altaf hefir einkent bankaráð vor og virðist alt helst benda til þess, að þeir skoði þessar stöður eins og bitlingastöður, en ekki sem ábyrgðarmiklar stöður fyrir velferð lands og þjóðar. [..]er leitt að í hegningarlögum vorum skuli ekki vera neitt ákvæði um hæfilega refsingu þeim til handa, fyrir þeirra fyrirhyggjulausu og kærulausu framkomu.” 11

Engu er líkara en að þessi beitta grein hafi verið banabiti útgáfunnar. Ekki er raunar líklegt, hafi það skipt máli, að viðskiptavild blaðins í bönkunum hafi eflst við þessi skrif.

Verklýðsblaðið 1.3.1934

1. mars 1934 prýddi þessi myndskreyting úttekt Verklýðsblaðsins á bankahruni þess tíma. Ýmislegt er þar kunnuglegt nú um 80 árum síðar. Atkins-kúrinn hefur þó ekki verið kominn til sögunnar ef marka má myndlistina.

Þegar einn þriggja bankastjóra hins aflagða Íslandsbanka, Kristján Karlsson, var gerður afturreka með kaupkröfur sínar í Hæstarétti á þeim forsendum að hann hefði brotið af sér í starfi þótti mega álykta að hinir tveir, báðir framámenn í Sjálfstæðisflokknum, væru undir sömu sök seldir.12

Dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson, hélt þó að sér höndum með að fyrirskipa sakamálarannsókn uns flokksbróðir hans, Ásgeir Ásgeirsson, tók saman við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýrrar ríkisstjórnar - án Jónasar.

Nýr dómsmálaráðherra, Magnús Guðmundsson, felldi niður sakamálin. Magnús varð hins vegar að láta af embætti skömmu síðar vegna meintrar aðildar að fjármálamisferli. En áður en Magnús hætti gerði hann annan þessara fyrrum bankastjóra, Sigurð Eggerz, að bæjarfógeta á Ísafirði.

Ríkisstjórn Ásgeirs nefndist því glæsta nafni, Samstjórn lýðræðissinna. Hún tók við í júní 1932 og hélt velli þar til Stjórn hinna vinnandi stétta komst á í júlí 1934.

Ólafur Thors, hinn nýji foringi sjálfstæðismanna og einn forstjóra útgerðarfélagsins Kveldúlfs tók við embætti dómsmálaráðherra af Magnúsi. Áður en Magnús lét af ráðherraembættinu skipaði hann „þjóna Kveldúlfs” í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði. Það voru þeir Jón Þórðarson umboðsmaður Kveldúlfs og Sveinn Benediktsson. Þetta spurðist misvel út en má hafa til marks um hvar ítök skiptu máli.13

Eftir átök atvinnuleysingja í Reykjavík við lögreglu, 7. júlí 1932, voru nokkrir kommúnistar settir í varðhald, þ.á.m. Einar Olgeirsson, Indíana Garibaldadóttir, Jens Figved og Stefán Pétursson.

Þau neituðu að svara spurningum rannsóknardómara meðan sakamál Íslandsbankastjóranna og fleiri slík mál væru ekki tekin fyrir. Í framhaldinu urðu fundarhöld víða í Reykjavík og var Jón Rafnsson meðal ræðumanna. Loks urðu svo fjöldamótmæli fyrir utan fangelsið á Skólavörðustíg.

Segir Verklýðsblaðið mótmælin hafa talið 3-4 þúsund manns og vera hin fjölmennustu, sem efnt hafi verið til á Íslandi til þessa. En Alþýðublaðið minnist ekki á þau einu orði. Daginn eftir voru fangarnir hins vegar látnir lausir.14

Níunda nóvember þetta ár varð síðan hinn frægi Gúttóslagur í Reykjavík og í Vestmannaeyjum stóðu þeir Jón, Ísleifur og félagar að „hótunum og æsingafundum” í desember.15

Það gekk þannig ekki þegjandi fyrir sig að velta byrðum kreppunnar yfir á almenning.

Bankamálin og annar siðferðisvandi ráðamanna voru kommúnistunum nærtæk viðmiðun er dómsvaldið útdeildi „stéttardómum” sínum. Þegar Jón og félagar hans fengu dóma vegna Borðeyrardeilunnar var þar til dæmis bankaþjófur að kveða upp dóma - í frásögn Verklýðsblaðsins.16

Verklýðsblaðið um bankaþjófa

Dreifirit Verklýðsblaðsins í júlí 1932 (Úr skjölum Jóns Rafnssonar)

Af öðrum átökum sem Jón var viðriðinn þetta mikla átakaár má nefna sjómannadeiluna í Vestmannaeyjum við upphaf vetrarvertíðar 1932. Í kjölfar markaðsbrests í fisksölu var lagt hart að sjómönnum að ráða sig upp á hlut í stað fastakaups og premíu, eins og áður var venja. Gegn þessu barðist Sjómannafélag Vestmannaeyja undir forystu kommúnista. Kom Rósinkranz Ívarsson þar eftirminnilega við sögu. Athyglisvert við þessa deilu og aðdraganda hennar er m.a. að kommúnistar náðu samvinnu við smáútgerðarmenn, sem voru fjölmennir í Eyjum og á drápsklafa bankanna. Deilan náði dramtískum hápunkti þegar skotið var af byssu inn um glugga á húsi þeirra Ísleifs Högnasonar og Helgu Rafnsdóttur.17

Þessu er lýst í Vori í verum sem og Kveldúlfsverkfallinu í Eyjum það vor, þar sem taxtabrotum fiskverkenda var hrundið. Um sjómannadeiluna er einnig fjallað í grein Hauks Björnssonar í Verklýðsblaðinu 23.5.1933. Og í 4. hefti Réttar 1933 er ítarleg úttekt Jóns.18 Jón var svo mættur um haustið í sláturtíðina hjá Kaupfélagi Eyfirðinga Akureyri. KEA hafði til þessa ekki tekið mark á taxta verkalýðsfélagsins en gerði nú við það skriflegt samkomulag.

Næsti kafli: ..og þursafjölskyldan hló

Fátt var meira rætt í flokksblöðum fjórða áratuginn en fisksölumál, einkum mál Kveldúlfs, útgerðarfélags þeirra Thors-feðga. Skuldasöfnun Kveldúlfs í bönkunum var þá gjarnan borin saman við auðsöfnun framkvæmdastjóranna.1 Í bakgrunni voru kreppukjör almennings. Kvæði Jóns, Tröllasaga, er sprottið úr þeim jarðvegi.

Árangur kommúnista í kosningunum 1937 og samfylkingarbaráttunni má m.a. rekja til þeirra hitamála. Jón Rafnsson var á blómaskeiði ferlis síns þessi ár og boðaði samfylkingarlínu Kommúnistaflokksins af eldmóði. Rétt er að litast um sviðið.

Upp komu ágreiningsefni um svikin síldarmál 2, stofnun leppfyrirtækja erlendis til að koma hagnaði úr landi og mútugreiðslur til að halda niðri fiskverði og styrkja stöðu Kveldúlfs í fisksölunni.3

Þeir flokkar sem lengst af stóðu að ríkisstjórnum þennan áratug, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur, báru hvor öðrum óspart á brýn óheilindi í málum Kveldúlfs þegar dró að kosningum 1937. Vígreifar yfirlýsingar þeirra í flokksblöðunum um að taka stórútgerðina til skuldauppgjörs eða þjóðnýta sefuðu vísast reiði margra en urðu að engu í framkvæmd. Í ljós kom að forystumenn stjórnarflokkanna, sem jafnframt sátu í stjórnum bankanna, vildu ekki þegar á reyndi ganga að stórútgerðinni. Og sömdu bankarnir við Kveldúlf vorið 1937.

Alþýðublaðið túlkaði samningana sem svik Framsóknarforystunnar.4 Horfði blaðið þar hjá aðgerðarleysi eigin forystumanna sem stýrðu Útvegsbanka.5 Nýja dagblaðið, málgagn Framsóknar, taldi hins vegar stórsigur hafa unnist á „fjármálabrögðum Kveldúlfs” 6.En Morgunblaðið þakkaði sínum sæla – þ.e.a.s. stjórnum bankanna – að ekki fór verr.7

Í bankaráði ríkisbankans, Landsbanka, sátu um þetta leyti formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, Jónas Jónsson og Ólafur Thors. Þeir voru ekki aðeins helstu áhrifamenn íslenskra stjórmála þessara ára heldur einnig fulltrúar Sambandsins og Kveldúlfs, stærstu skuldara bankans.

Þá var Stefán Jóhann Stefánsson, ritari Alþýðuflokksins, formaður bankaráðs Útvegsbanka og Jón Baldvinsson, formaður Alþýðuflokks og forseti A.S.Í.,var einn þriggja bankastjóra Útvegsbankans síðan í bankahruninu 1930.

Eysteinn Jónsson, fjármálaráðherra, fullyrti í þingræðu, um það leyti sem samið var við Kveldúlf vorið 1937, að Jón Baldvinsson hefði verið mótfallinn því að taka fyrirtækið til þrotaskipta 8 þótt það væri þá hin opinbera krafa Alþýðuflokksins.

Rannsóknir Þorleifs Friðrikssonar sýna að Útvegsbankinn ábyrgðist erlent lán til Alþýðuflokksins um þetta leyti.9 Vaknar sú spurning hvort það auðveldaði meðferð annarra mála í bankanum. Eru þar ágiskanir einar í boði.

Þegar hér var komið hafði Ásgeir Ásgeirsson yfirgefið Framsóknarflokkinn og gengið í Alþýðuflokkinn. Eins og áður sagði stóð Ásgeir að Samstjórn lýðræðissinna með Sjálfstæðisflokknum 1932-34.

Ásgeir, sem var forsætis- og fjármálaráðherra í þeirri ríkisstjórn, mun hafa hlutast til um að hinn endurreisti Íslandsbanki,10 Útvegsbankinn, gengi ekki hart að Kveldúlfi, útgerðarfélagi þeirra Thors-bræðra, vegna skulda þess við bankann. „Er bókað um þetta viðhorf Ásgeirs í fundabók Útvegsbankans” segir í grein Jónasar Jónssonar.11

Jónas er þó ekki svo rætinn að rifja upp „mjög hagkvæma samninga” Ásgeirs við Íslandsbanka um skuldir hans þar rétt áður en bankinn fór í þrot og leitaði eftir ríkisábyrgð eins og nefnt var í síðasta kafla.

Ásgeir var valinn af Alþýðuflokknum í milliþinganefnd sem sett var á laggir rétt fyrir kosningarnar 1937. Nefndin átti að rannsaka starfsemi bankanna og leggja til úrbætur í málum þeirra. „Mikil er alvaran!” er fyrirsögn leiðara Nýja dagblaðsins, málgagns Framsóknar, að því tilefni og rifjar upp í háðstón fyrri aðkomu Ásgeirs að bankamálum.12

Þó ekki sé að efa einlægni ýmissa greinaskrifa stjórnarblaðanna um mál Kveldúlfs og bankanna er nærtækt að tala um látalæti flokksblaða og leikhús á Alþingi. Stjórnarflokkarnir kepptust um að flytja umbótafrumvörp fyrir kosningarnar - sem lítið varð úr. Og Morgunblaðið átti auðvelt með að benda á tvískinnung og ótrúverðuleika forystumanna stjórnarflokkanna.13

Eftir samning bankanna við Kveldúlf gat „Kveldúlfsmálgagnið” talað í háðstón um karp Framsóknar og krata. „Þegar hjúin deila” er fyrirsögn greinar Morgunblaðsins.14 Þó ekki séu húsbændurnir sérstaklega nefndir þá fer ekki milli mála að greinin er skrifuð af þeirra sjónarhóli. Eftir þingkosningarnar í júní 1937 var Þjóðstjórnin svonefnda (1939-42) í bígerð. Og hefði ef til vill mátt kallast Húsbændur og hjú.

Þegar upp er staðið virðast hin raunverulegu völd vera þar sem streymi fjármagnsins er ráðið. Í bankastjórnum, gjaldeyrisnefndum, sölusamtökum framleiðanda og stjórnum ríkisfyritækja að ógleymdum „eigendum” stóratvinnutækja

Dæmi um hið síðastnefnda er þegar Kveldúlfur lagði togurum í atvinnuleysinu eða notaði til að flytja byggingarefni í veiðihús forstjóranna við Haffjarðará. Töluðu andstæðingar Sjálfstæðisflokksins um að togurum Kveldúlfs væri lagt til að þrýsta á stjórnvöld í atvinnuleysinu eða beygja samningsaðila í kjarasamningum.15

Aðrir töldu Kveldúlf hinn eina sanna samherja almennings og atvinnuskapara.

Ítök Sjálfstæðisflokksins í atvinnulífi og bönkum voru sterk þessi ár þótt flokkurinn kæmi lítið með beinum hætti að landstjórninni á árunum 1927 til 1938. Samstjórn lýðræðissinna (1932-34) undir forsæti Ásgeirs Ásgeirssonar var þar merk undantekning. Samstarf Ásgeirs við hinn nýja foringja sjálfstæðismanna virðist raunar hafa verið gott. Þegar Ólafur Thors varð ráðherra í stjórninni eftir áðurnefnd forföll Magnúsar Guðmundssonar setti Ólafur bráðabirgðalög, sem tryggðu hinum nýstofnuðu sölusamtökum, S.Í.F. einkasölu á saltfiski.16 Stjórnin stóð svo að hinum svonefndu Spánarmútum. Og þótt það væri ekki með beinum hætti á könnu ríksstjórnarinnar má nefna að S.Í.F. / Kveldúlfur greiddi ítölsku innflutningsfyrirtæki árið 1933 „stórfé” í mútur að því er virðist til að geta flutt hagnað fisksölunnar til leppfyrirtækis Kveldúlfs á Ítalíu.17

„[..] það eru hinar vinnandi stéttir en ekki Kveldúlfur sem nú ráða í þessu landi” segir málgagn Framsóknarmanna, Nýja dagblaðið, í vígreifri forsíðugrein, 15.11.1934 – vísast að gefnu tilefni.18 Stjórn hinna vinnandi stétta (1934-39) var þá nýlega tekin við af Samstjórn lýðræðissinna.

Spegillinn um galeyðu Kveldúlfs

Spegillin, 19.12.1939. Fjórði áratugurinn í hnotskurn? Talið frá stýrimanni, Ólafi Thors, lengst til hægi: Hermann Jónasson, Eysteinn Jónsson, Jónas Jónsson, Stefán Jóhann Stefánsson og Sigurjón Á. Ólafsson formaður Sjómannafélags Reykjavíkur. Árni Jónsson frá Múla handleikur svipuna. Í stafni stendur aðalbankastjóri Landsbankans og stjórnarformaður Sambands Íslenskra fiskframleiðanda, Magnús Sigurðsson.

Hvað sem þeim hreystiyrðum leið þá sá leiðari Alþýðublaðsins, rúmum tveim árum síðar, ástæðu til að benda á að „[..] lýðræði á ekki að vera og er ekki í því einu fólgið, að þjóðin hafi rétt til að kjósa fulltrúa á þing, heldur ber að stjórna fjármálum og atvinnumálum þjóðarinnar í samræmi við vilja meirihlutans eins og hann er á hverjum tíma. Því verður ekki neitað að á þessu er hinn mesti misbrestur”.19

Finnbogi Rútur Valdimarsson var ritstjóri Alþýðublaðins 1934-1938. Fáir deildu harðar á Kveldúlf og Landsbankann en Alþýðublaðið í ritstjórn hans þessi ár. Finnbogi Rútur yfirgaf hins vegar Alþýðublaðið í árslok 1938 - snúðugt, segir efnislega í Gullnu flugunni.20

En hvað um völd verkalýðssamtakanna, sem öðrum þræði eru upphaf og endir þessa máls?

Fyrir daga sérhæfingar og almennrar skólagöngu var verkafólk nánast það sem í dag er kallað almenningur. Völd verkalýðssamtakanna fóru ekki fram hjá neinum. Þannig var það tæpast einber tilviljun að forkólfar alþýðusamtakanna þóttu til forystu fallnir í banka, sem endurreisa átti á kostnað almennings, eins og gert var eftir bankahrunið 1930.

Völd verkalýðshreyfingarinnar fóru ekki á milli mála. En birtingarmynd þeirra er íhugunarefni.

Eftir fráfall Jóns Baldvinssonar í febrúar 1938 kom á formannsstól í Alþýðuflokki og þar með í forsæti Alþýðusambands, Stefán Jóhann Stefánsson. Stefán Jóhann fékk embætti félagsmálaráðherra í Þjóðstjórninni vorið 1939 að því er virðist í skiptum fyrir baráttumál flokks og verkalýðshreyfingar.

Morgunblaðið taldi sig ekki þurfa að dylja fyrirlitningu sína á samstarfsaðilanum. „Ráðherra flokksins gat fengið að setjast í stól sinn ef hann vildi lögfesta þar að svifta verkalýðinn ‚hinum helga rétti verkfallsins′. Alþýðuflokkurinn ‚keypti sig inn′ og allt kaupgjald verkalýðsins á landinu var lögbundið. – Þ.e.a.s. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn á Alþingi ákváðu kaupgjaldið – og Alþýðuflokkurinn fékk að vera með. Í leiðinni var svo fornvinunum, stórútgerðarinni, veitt skattfrelsi til 5 ára. Einnig í því fékk Alþýðuflokkurinn að vera með. Ekkert hefur heyrst um að foringjunum hafi orðið misdægurt út af þessu, en hugsjónamennirnir í kjósendahjörðinni horféllu”, segir Morgunblaðið 3.8.1940 21 og hefði einnig mátt nefna 18% gengislækkun í byrjun árs 1939, sem fylgdi með í kaupunum til hagsbóta fyrir stórútgerðina.

Hér hefur öðrum þræði verið rakinn embættisframi nokkurra stjórnmálaleiðtoga þessi ár. Meðal kommúnistanna var þó hvorugu til að dreifa, fé eða feitum embættum. Líkt og flestir Íslendingar á kreppuárunum höfðu þeir vart í sig og á. Heimildir eru t.d. fyrir því að tveir helstu forystumenn kommúnista, Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson, hafi um árabil ekki getað endurnýjað klæði sín og efnt hafi verð til samskota meðal flokkssystkina til kaupa á fötum fyrir þá.

Jón var erindreki flokksins mestallan fjórða áratuginn. Um erindrekana segir Einar Olgeirsson að þeir hafi ekkert kaup fengið en búið og borðað hjá flokksfélögum og öðrum sem sáu um að flytja þá milli staða. Þeim var þó stundum útvegaður fatnaður.22

Það var almennt ekki vænlegt í baráttu fólks fyrir lífsviðurværi þessi ár að vera yfirlýstur kommúnisti.23

Varð mörgum að vonum freisting að ganga af trúnni. Segir af því með sínum hætti í sjöttu rímu Jóns af Rósinkranz Á. Ívarssyni.

Í baráttusveit kommúnista voru raunar nokkrir smákapitalistar. Má sem dæmi nefna Björn Grímsson og Jón Guðmann, norðlenska smákaupmenn. Flokkurinn bar hag slíks einkaframtaks fyrir brjósti 24 og var, ólíkt Alþýðuflokknum á þessum tíma, andvígur ríkisrekstri sem þætti í „ríkisauðvaldinu”.

„Heildsalaokrið” var einnig mjög á dagskrá kommúnistanna. Þessi ár voru við lýði innflutnings- og gjaldeyrishöft. Leyfisveitingar voru á hendi nefnda á vegum stjórnvalda, sem gaf kost á fyrirhyggju af ýmsu tagi eða jafnvel pólitísku makki. Framsóknarmenn gerðu sér t.d. mat úr því í karpinu við krata um hvor þeirra væri veikari fyrir Kveldúlfi, að Jón Baldvinsson forfallaðist í Innflutnings- og gjaldeyrisnefnd meðan nefndin sneri við fyrri ákvörðun um leyfi til Kveldúlfs fyrir síldarverksmiðju á Hjalteyri. Áður hafði nefndin hafnað leyfinu á þeim forsendum að Kveldúlfur stæði ekki í skilum við bankana.25

Kommúnistum tókst að halda úti blöðum sínum og flokksstarfi, mest fyrir fórnfýsi almennra félaga. Flokkurinn sótti að vísu um styrki hjá Alþjóðasambandi kommúnista til pólitískra utanferða og til einstakra verkefna en fékk að því er virðist „[..]ekki neinar umtalsverðar greiðslur” segir í Kæru félagar, bók Jóns Ólafssonar. Niðurstaða Þórs Whitehead í bókinni Sovét Ísland - óskalandið, virðist á sama veg.26

Mat kommúnistanna á samtímaatburðum og hverning bregðast ætti við þeim byggði á hinum kommúnísku fræðum eða túlkun þeirra á hverjum tíma. Sáu þeir á þessum árum mörg sannindamerki um ágæti fræðanna og óhjákvæmileika heimsbyltingarinnar. Tekist var á af miklli alvöru innan Kommúnistaflokksins um ýmis prinsipmál, eins og afstöðuna til sósíaldemókrata yfirleitt og Alþýðuflokksins sérstaklega.

Í samræmi við reglur Alþjóðasambandsins, Komintern, skutu kommúnistar ágreiningsefnum sínum þangað. Eftir valdatöku nasista í Þýskalandi 1933 endurspeglaði stefna þess þó fyrst og fremst viðhorf Sovétríkjanna í eigin öryggismálum. Samfylkinarstefna kommúnista í Evrópu (Popular Front) var afsprengi þess stöðumats. Við upphaf stríðsins 1939 urðu svo kollsteypur og mótsagnir í opinberri afstöðu Sovétríkjanna til Þýskalands. Reyndist það íslenskum kommúnistum myllusteinn um háls.

En Sovétríkin voru þeim land hinna miklu fyrirheita.

Næsti kafli: Samfylking og Sósíalistaflokkur

Fram til um 1934, höfðu íslenskir kommúnistar þá stefnu Alþjóðasambandsins að leiðarljósi að sósíaldemókratar væru „höfuðstoð auðvaldsins”. Samfylking ætti að koma neðan frá og allt samráð við krataforystuna væri kórvilla. Heimsþing Alþjóðasambandsins árið 1928, sem þeir Einar Olgeirsson, Haukur Björnsson og Þorsteinn Pjetursson sóttu, hnykkti á þessu. Og spáði þingið réttilega fyrir um hina yfirvofandi heimskreppu.1

Krepputal kommúnistanna naut ekki mikils álits. Fræg urðu ummæli Ólafs Friðrikssonar á Alþýðusambandsþinginu í nóvember 1930 að kreppan væri hvergi til nema í kollinum á Brynjólfi Bjarnasyni. Þegar kreppan náði til Íslands var haft eftir Ásgeiri Ásgeirssyni, forsætis- og fjármálaráðherra 1932-34: „Það er með kreppuna eins og vindinn, enginn veit hvaðan hún kemur og hvert hún fer”. Er vísast jafnræði með veðurfræðinni og hagfræðinni í þeim orðum.

Í þingkosningum 1933 buðu kommúnistar fram víða um landið og klipu af fylgi Alþýðuflokksins. Jón Rafnsson var til dæmis boðinn fram á Ísafirði, einu helsta vígi krata.2

Sama ár kom hins vegar út samfylkingaráskorun frá stjórn Alþjóðasambands kommúnista, ákall um andfasiska samfylkingu með sósíaldemókrötum.3 Þessi stefnubreyting átti sér forsendur í ógn og uppgangi nasismans í Þýskalandi og mati Sovétríkjanna á öryggishagsmunum sínum. Á næstu árum buðu íslenskir kommúnistar krötum samfylkingu jafnt í almennum kosningum sem í verkalýðsmálum. Hið sama átti við víða annars staðar í Evrópu og samfylking af þessu tagi vann kosningasigra á Spáni og í Frakklandi (Frente popular/Front populaire).

Forysta Alþýðuflokksins tók þessum nýtilkomnu kumpánlegheitum kommúnista illa. Í kosningum til sveitarstjórna á þessu tímabili galt Alþýðuflokkurinn hins vegar afhroð fyrir kommúnistum á Akureyri, Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Og í Reykjavík töpuðu kratar fylgi til kommúnista í þingkosningum sumarið 1937. Náðu kommúnistar þá þremur mönnum á þing, þeim Einari Olgeirssyni og Brynjólfi Bjarnasyni í Reykjavík og Ísleifi Högnasyni í Vestmannaeyjum.

Gætti vaxandi óróa í Alþýðuflokknum í stjórnarsamstarfinu með Framsóknarflokknum eins og sumpart var rakið í tengslum við Kveldúlfsmálin. Til viðbótar kom sterk staða kommúnista í verkalýðshreyfingunni. Þannig komst samfylking eða sameining kommúnista og krata mjög á dagskrá og fékk hljómgrunn í Alþýðuflokknum utan flokksforystunnar.

Eftir þingkosningarnar sumarið 1937, samþykkti Dagsbrún í Reykjavík, stærsta verkalýðsfélagið, áskorun um að Kommúnistaflokkurinn og Aþýðuflokkurinn sameinuðust. Héðinn Valdimarsson, varaformaður Alþýðuflokksins, var flutningsmaður tillögunnar. Í framhaldinu fóru af stað viðræður milli flokkanna. Varð ekki undan því skorast þó að vitað væri að forysta Alþýðuflokksins að Héðni undanskildum vildi ekkert samneyti við kommúnista.

Kom þar margt til. Alþýðuflokkurinn var fjárhagslega háður bræðraflokkum í Skandinavíu sem settu það skilyrði að kommúnistum væri haldið utan dyra.4 Eins hafði ráðandi hluti forystunnar áhuga á áframhaldandi ríkisstjórnaraðild en Framsóknarflokkurinn gaf ótvírætt í skyn að með kommúnista innanborðs kæmi slíkt ekki til greina.

Í viðræðum flokkanna voru mörg ágreiningsefni. Athyglisverð er m.a. deila þeirra um lýðræði. Alþýðuflokkurinn krafðist þess að kommúnistar gengjust undir það skilyrði að flokkurinn lyti þingræði og landslögum. Kommúnistar kváðust ótvírætt aðhyllast lýðræði og að réttur meirihluta þjóðarinnar til að ráða málum væri skilyrðislaus. Hins vegar væru lögin og vilji þings oft andstæð vilja meirihluta almennings og tíunduðu dæmi því til stuðnings.5

Þegar sameiningarmálin komust á dagskrá fékk Alþýðuflokkurinn bréf frá hinum sænska bræðraflokki sínum þess efnis að eftirsjá yrði að íslenska flokknum í samstarfi sósíaldemókrata ef af sameiningu eða samfylkingu yrði með kommúnistum.

Um þetta leyti var á döfinni stórlán til Alþýðuflokksins frá sænska flokknum – vel að merkja með ábyrgð Útvegsbankans, þar sem Stefán Jóhann og Jón Baldvinsson sátu í lykilembættum. Stefán Jóhann gat í svarbréfi skömmu síðar upplýst Svíana um að flokkstjórnin hefði ákveðið að slíta viðræðunum þó öfl innan flokksins vildu halda þeim áfram.6

Kommúnistar leituðu fyrir sitt leyti álits Alþjóðasambands kommúnista, sem var mjög áfram um sameiningu flokkanna og leyfði í raun meiri tilslakanir gagnvart sjónarmiðum Alþýðuflokksins en íslensku kommúnistarnir voru tilbúnir til að veita.7

Þegar Héðinn Valdimarsson hélt áfram viðræðum við kommúnista þvert á samþykktir flokksforystunnar var hann rekinn úr Alþýðuflokknum í janúar 1938. Skömmu eftir brottreksturinn var Héðinn hins vegar kosinn formaður Dagsbrúnar, stærsta verkalýðsfélagsins, sem komið var í andstöðu við flokkseinokunina í Alþýðusambandinu. Í formannsætinu var fyrir Guðmundur Ó. Guðmundsson, einn helsti stuðningsmaður Héðins og staðgengill. En kosning Héðins var táknrænn stuðningur í átökum hans við forystu Alþýðuflokksins.

Formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvinsson, féll frá í febrúar 1938 eftir átök við Héðin. Virtist staða Alþýðuflokksins veik í framhaldinu. Flokkurinn var hins vegar tekinn í Þjóðstjórnina vorið 1939 eins og áður kom fram.

Kommúnistar og vinstri armur Alþýðuflokksins undir forystu Héðins sameinuðust í Sameiningarflokki alþýðu - Sósíalistaflokknum 24. október 1938, skömmu eftir setningu þings Alþýðusambandsins.8

Sósíalistaflokkurinn hafði engin formleg tengsl við alþjóðasamtök ólíkt Kommúnistaflokknum, sem lagður var niður. Eins og mál þróuðust slitnuðu þó ekki tengslin við Alþjóðasambandið og Kommúnistaflokk Sovétríkjanna. Formaður hins nýstofnaða Sósíalistaflokks var kjörinn Héðinn Valdimarsson. Vera Héðins í flokknum varð þó stutt eins og vikið er að síðar.

Jón Rafnsson kom víða við þessi samfylkingarár. Auk þess að vera í miðju kjaradeilna víða um land var hann í verkalýðs- og bæjarpólitík Vestmannaeyja. Hann var efstur á lista kommúnista til bæjarstjórnar í janúar 1934 og náði listinn inn þremur mönnum.

Borðeyrardeilan, sem áður var nefnd, var þá um vorið og þegar þingkosningar urðu enn um sumarið bauð Kommúnistaflokkurinn Jón fram á Seyðisfirði. Var Jón það sumar ýmist á landsmálafundum í Eyjum eða á Austfjörðum.

Síðsumars og um haustið 1934 var Jón í Reykjavík, talaði gegn fasisma og stríði á útifundi þar 1. ágúst, hélt erindi á fræðslu- og skemmtikvöldum Kommúnistaflokksins í Bröttugötunni og var fulltrúi Sjómannafélags Vestmannaeyja á verkalýðsráðstefnu kommúnista í Reykjavík í nóvember.

Í október 1934 féllu dómar vegna Borðeyrardeilunnar og fékk Jón þyngstan dóm félaga sinna, tveggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Dóminn kvað upp Íslandsbankastjórinnn fyrrverandi, Sigurður Eggerz, sem áður var nefndur.9 Þessum dómi var þó ekki fullnægt, sem er íhugunarvert.

Samfylkingarbarátta kommúnista var að komast á verulegt skrið um þetta leyti. Þegar líða tók á árið 1935 var Jón í fundaferðum um Austfirði þar sem hann kynnti samfylkingartilboð kommúnista. Í áskorun þeirra til ríkisstjórnarinnar var m.a. lögð áhersla á tiltekt í málefnum stórútgerðar og banka og stuðning við smáútgerðina.10 „Hvergi eru fingraför kreppunnar skýrari en í sjávarþorpum landsins.[..]Hinir ríku njóta forréttinda í atvinnu- og viðskiptalífi, með því að sitja fyrir um rekstursfé [..] sjóþorpin sem helst byggja afkomu sína á smáútgerð, komast á vonarvöl. ” skrifar Jón í Vori í verum.

Á Eskifirði sagði ráðþrota hreppsnefndarmeirihluti af sér á miðju kjörtímabili og hljóp bráðabirgðastjórn kommúnista, eins konar byltingarráð, í skarðið - við lítinn fögnuð landstjórnarinnar. Þegar lögmætar kosningar voru haldnar nokkru síðar reyndust kommúnistar stærsti flokkurinn þó þeim væri haldið utan hreppsnefndar. Innan árs var aftur komin uppgjöf í hreppsnefndina. Sáu Eskifjarðarkratar þá að sér og samfylking þeirra og kommúnista tók við. Frá þessu segir í Eskfirðingaþætti Vors í verum.

Í Vestmannaeyjum fór mjög fyrir kommúnistum. Þeir voru með þrjá menn í bæjarstjórn eftir kosningar 1934, Alþýðuflokkurinn einn en Sjálfstæðisflokkur með fimm fulltrúa og hreinan meirihluta. Jón var efstur á lista kommúnistanna.

Grein um Jón Rafnsson í blaðinu Hamri árið 1937

Þessi hugvekja birtist 16. júní 1937 í blaðinu Hamri sem gefið var út í Eyjum af Guðlaugi Br. Jónssyni fyrir kosningar til Alþingis það ár. Blaðið var helgað sérframboði Guðlaugs. Guðlaugur mun þó lengst af hafa verið gegn sjálfstæðismaður og starfaði um tíma sem fátækrafulltrúi í Eyjum. Guðlaugur fékk 11 atkvæði í kosningunum.

Ástþór Matthíasson var forseti bæjarstjórnar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Eyjum þessi ár, 1934-38. Svo skemmtilega vildi til að þeir Jón hittust í fjölskylduboði í Reykjavík um þrjátíu árum síðar og fögnuðu sameiginlegum afkomanda. Fór vel á með þeim eins og við var að búast og höfðu um margt að spjalla. Ástþór rifjaði m.a. upp komu Stefáns Jóhanns Stefánssonar á fund bæjarráðs í Eyjum en Stefán Jóhann var þá ritari Alþýðuflokksins og formaður bankaráðs Útvegsbankans. Jón hafði eitthvað það að athuga við boðskap Stefáns, sem varð til þess að hann dvaldi skemur á fundinum en áformað var. „Leyfið þér yður að hlæja að kommúnistastráknum?” á Stefán að hafa sagt við Ástþór og yfirgefið fundinn að svo mæltu. 11

Samfylkingarbarátta kommúnista bar fljótlega árangur þar í Eyjum. Við kosningar til bæjarstjórnar í upphafi árs 1938 voru Kommúnistaflokkur og Alþýðuflokkur með sameiginlegan lista þar sem Jón tók fimmta sæti. Sjálfstæðisflokkurinn hélt þó hreinum meirihluta áfram eftir kosningarnar.

Samfylking varð einning í kosningum til sveitarstjórna 1938 á Ísafirði, á Siglufirði, Norðfirði, Eskifirði, Borgarnesi, Patreksfirði og í Hafnarfirði auk auk smærri staða.12

Í Reykjavík gekk forysta Alþýðuflokksins, eins og áður sagði, nauðug til sameiginlegs framboðs með kommúnistum í bæjarstjórnarkosningum 1938 og rak sameiningarpostulann, Héðinn Valdimarsson, að þeim loknum.

Næsti kafli: Hernaðarátök í Hafnarfirði

Forysta Alþýðusambandsins lét setja lögregluvörð við inngang sambandsþingsins haustið 1938. Var það til að varna inngöngu þeim fulltrúum verkalýðsfélaganna sem ekki töldust tryggir Alþýðuflokksmenn. Tókst sambandsstjórninni þannig að tefja virka umfjöllun um skipulagsbreytingar. Meðal þeirra sem haldið var utan dyra var varaforseti sambandsins frá síðasta þingi og formaður Dagsbrúnar, Héðinn Valdimarsson. 1

Þeim verkalýðsfélögum, sem kröfðust breytinga á skipulagi A.S.Í. fjölgaði ört. Í lok janúar 1939 komust þeir í meirihluta í Verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði, sem opna vildu Alþýðusambandsþing fyrir fulltrúum utan Alþýðuflokksins. Fóru þar vinstri kratar og kommúnistar sameinaðir í hinum nýstofnaða Sósíalistaflokki. Nutu þeir nú stuðnings félaga úr Málfundafélaginu Þór, félagi verkamanna í Sjálfstæðisflokknum, sem voru að byrja að láta til sín taka í verkalýðshreyfingunni. 2

Alþýðuflokkurinn hafði löngum ráðið lögum og lofum í Hlíf, en af mannvali hans voru flestir komnir í opinber embætti eða eigin atvinnurekstur – nema hvorutveggja væri.

Hinn nýji meirihluti í stjórn Hlífar gerði sér nú lítið fyrir og rak úr félaginu nokkra fyrrum forvígismenn og eðalkrata. Voru þeir taldir eiga betur heima í samtökum atvinnurekenda. Þar voru meðal annarra Ásgeir G. Stefánsson forstjóri Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Emil Jónsson vitamálastjóri og fleiri höfðingjar, sem auk hinna opinberu starfa stunduðu nú eigin togaraútgerð undir merkjum útgerðarfélagsins Hrafna Flóka.3 Ásgeir var einnig stjórnarmaður í Landssambandi íslenskra útvegsmanna með Kjartani Thors og fleiri stórútgerðarmönnum.

Viðraði vel um þessar mundir fyrir athafnamenn í þeim geira. Ríkisstjórn lýðræðisflokkanna svonefndu, Þjóðstjórnin, færði stórútgerðinni skattfresli, kaupbindingu og gengisfellingu krónunnar. Í stjórnum bankanna var einnig valinn maður í hverju rúmi og verðtryggð lán ekki komin til sögunnar.

Stjórn Alþýðusambandsins brást við brottrekstrunum með líkum hætti og áður í átökum við kommúnista: vísaði Hlíf úr samtökunum og veitti hinu nýstofnaða klofningsfélagi inngöngu.

Meðlimir þess voru að mestu launþegar hinna brottreknu vinnuveitanda þ.m.t. Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Töldu þeir u.þ.b. þriðjung þeirra sem eftir urðu í Hlíf. Klofningsfélag þetta, Verkamannafélag Hafnarfjarðar, gerði síðan samninga við atvinnurekendur. 4

Dreif nú að ýmsa stuðningsmenn Hlífar sem ekki vildu hlíta dauðadómi Alþýðusambandsins yfir félaginu, þeirra á meðal Jón Rafnsson. Félagsfundur lýsti yfir vinnustöðvun og var ráðist í hana án frekari viðhafnar. Þegar á reyndi skipulag og baráttuvilja var fylking Hlífar vandanum vaxin og tókst að framfylgja vinnustöðvuninni.

Biðlaði Alþýðublaðið stíft til ríkisstjórnarinnar um inngrip í deiluna. Var blaðið full veiðibrátt 17. febrúar, þegar það fullyrti að ríkisvaldið hefði tekið í taumana á bryggjunni í Hafnarfirði þar sem fyrir voru „nokkrir ósofnir og skjálfandi kommúnistar”. 5

Mátti forysta Sjálfstæðisflokksins sitja undir frýjuorðum blaðsins, sem kallaði sjálfstæðismenn „þæg verkfæri kommúnista” og síðar: „[sjálfstæðismenn] geta verið þektir fyrir að biðja um innrásarher undir stjórn yfirlýstra ofbeldismanna, manna sem hvergi, þar sem þeir hafa verið, hafa gert annað en reyna að kúga, níða niður og sundra öllu sem þeir hafa komið nálægt.” , segir blaðið í leiðara 20. febrúar 1939. 6

Verkalýðsleiðtoginn. Teikning Bidstrups

Vandi fulltrúalýðræðisins? (Þjóðviljinn 11.1.1959)

Ritstjóri Alþýðublaðsins um þetta leyti var Jónas Guðmundsson, hinn sami og 16 árum áður tók við formennsku af Jón Rafnssyni í Verkalýðsfélagi Norðfjarðar. Jónas sat nú í bankaráði Landsbankans ásamt nafna sínum frá Hriflu og Ólafi Thors.

En það var fleira en siðferðilegur stuðningur Sjálfstæðisflokksins sem ritstjórinn saknaði. Í sama leiðara segir: „En nú er svo málum komið að í Hafnarfirði má raunverulega telja, að um hernaðarátök sé að ræða[..] Ríkisvaldið er og hefur verið alla daga, veikt hér á landi. Það getur ekki afstýrt vandræðum sem þessum með her, eins og tíðkast erlendis, því hér er enginn her til[..]” .

Ekki gerir blaðið nánari grein fyrir því hvaða lönd það hafði í huga, sem afstýrðu vandræðum sem þessum með hervaldi. Þar var þó af nokkru að taka um þetta leyti sunnar í álfunni. Og vanmáttur ríkisins þar síst til baga.

Virðast hafa orðið veruleg umskipti í Alþýðuflokknum þegar fjara tók undan flokkseinokuninni í Alþýðusambandinu. Og fór Alþýðublaðið hamförum í baráttunni gegn kommúnistum sem aldrei fyrr. Eftir brotthvarf Finnboga Rúts Valdimarssonar í árslok 1938 tóku við blaðinu Jónas Guðmundsson og síðar Stefán Pétursson, báðir handgengir Stefáni Jóhanni. Nafni Finnboga Rúts var þó haldið í blaðhausnum fram á mitt ár 1940 af einhverjum ástæðum.

Þessi umskipti urðu Vísi, öðru aðalmálgagni Sjálfstæðisflokksins, að umræðuefni í leiðara ári eftir lok Hlífardeilunnar. „Allir sem nokkuð muna, vita, að Alþýðuflokkurinn hafði talið það goðgá að minnast á gengisfellingu og lögbundna kaupfestingu. [..] Eða varalögreglan? Við undanfarnar kosningar hafði Alþýðublaðið stimplað hvern þann mann ‚verkalýðsböðul′ og ‚nazista′ sem lét sér um munn fara að styrkja þyrfti ríkisvaldið”. 7

Tíminn, málgagn ríkisstjórnarinnar, hafði einnig áhyggjur af hremmingum samstarfsflokks síns til margra ára og forystu Alþýðusambandsins. Talar blaðið í leiðara 2. mars um að Héðinn og kommúnistar fái hjálp Sjálfstæðisflokksins í Hlífardeilunni við að „steyta hnefan framan í ríkisvaldið”.8

En glímukappinn 9 í forsætisráðuneytinu, Hermann Jónasson, sendi ekki kylfusveitir á vettvang - „[þótt vissa sé fyrir því] að nokkrar ráðstafanir hefur [ríkisstjórnin] gert til að grípa inn í deiluna á þann hátt” – segir í málgagni Héðins Valdimarssonar, Nýju landi.10

Ávarp stjórnar Hlífar í Hafnarfirði

Ávarp stjórnar Hlífar (Úr skjölum Jóns Rafnssonar)

Eftir sameiningarályktun Dagsbrúnarfundar að loknum kosningum 1937, var ljóst að flokkseinokun Alþýðuflokksins í Alþýðusambandinu var í uppnámi. Og fannst samstarfsflokkum hans ekki lengur á vísan að róa með þau hlunnindi. Í leiðara Vísis 1. febrúar 1939 er sú þróun nokkuð rakin. „En það er nú vitað, að sú stétt, sem Alþýðuflokkurinn studdist við í öndverðu, er orðin honum fráhverf að verulegu leyti. Að hve miklu leyti það er, verður með einhverjum hætti að ganga úr skugga um”.11

Má skoða stofnun málfundafélaga sjálfstæðisverkamanna í ljósi þessarar þróunar, og geta sér þess til að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nú talið tímabært að sækjast eftir millliðalausum ítökum í verkalýðshreyfingunni. Bjarni Benediktsson, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins og áhugamaður um málfundafélögin, sá mál þó jafnframt í öðru ljósi. Í Morgunblaðsgrein hans segir m.a. „Enda heyrði jeg Jón Þorláksson sjaldan tala af meiri hlýju, en þegar hann var að brýna það fyrir okkur yngri fylgismönnum sínum, hve mikilsvert það væri að halda og auka verkamannafylgi flokksins”.12

Á meðan Hlífardeilan stóð sem hæst fór Morgunblaðið á kostum í lýðræðisboðskap sínum og gagnrýni á flokkseinokunina í Alþýðusambandinu.13 Tók blaðið þar undir helsta baráttumál kommúnistanna í yfir áratug eða allt frá þeir viðruðu sjónarmið sín um fagsamband óháð flokksaðild á Alþýðusambandsþingi 1926. 14

Sjáfstæðisflokkurinn hafði, þegar hér var komið, staðið utan ríkisstjórna allt frá 1927 ef frá er talin Samstjórn lýðræðissinna 1932-34. Helst er að sjá að flokkurinn hafi verið orðinn leiður á aðstöðuframa Alþýðuflokksins sem þó „fékk að vera með” 20 í Þjóðstjórninni, sem mynduð var rétt eftir lok Hlífardeilunnar.

Benjamín H. Eiríksson skrifaði grein í Þjóðviljann 22. febrúar um eðli Hlífardeilunnar. Benjamín fetar mjög í spor frásagnar Vísis 17. febrúar 3 þegar hann segir: „Við opinberar atkvæðagreiðslur var [atvinnurekandi] farinn að hafa það til að hvessa augun yfir salinn, til þess að sjá hvernig verkamennirnir greiddu atkvæði. Þegar svo leynilegrar atkvæðagreiðslu var krafist, þá fór hún á annan veg en hin opinbera. Hversu lengi gat félagið verið starfshæft sem verkamannafélag upp á þessa kosti?”.

Og síðar í sömu grein: „Þar sem Alþýðusambandið er orðið viðskila við öll helztu verklýðsfélögin á landinu, þá er það ekki orðið annað en hagsmunafyrirtæki nokkurra embættismanna og skoðanalausra valdaspekúlanta í Reykjavík” . 15

Má ætla að Jón Rafnsson hafi lesið þessa grein Benjamíns með nokkurri velþóknun, þótt síðar komi fram efasemdir um áhuga hans á skrifum dr. Benjamíns um þetta leyti.16

Deilan endaði fyrir Félagsdómi þar sem Hlíf fékk sekt fyrir að framfylgja vinnustöðvun án lögboðins fyrirvara. Hins vegar, og það sem mestu skipti fyrir Hlífarfélaga, leit dómurinn svo á að vinnuveitendur hefðu brotið samninga á Hlíf með því að semja við klofningsfélagið – en það var upphaf og ástæða átakanna.

„Með þessum sigri er raunverulega séð fyrir endann á sögu hinna heimagerðu klofningsfélaga innan íslenzkra verkalýðssamtaka. Fulltrúar flokkseinokunarinnar í Alþýðusambandi Íslands hafa beðið ósigur í höfuðorustu[..]” segir í Vori í verum þar sem deilan er ítarlega rakin. 17

Skömmu eftir Hlífardeiluna eða í april 1939, var boðað til stofnþings Landssambands íslenskra stéttarfélaga. Sambandið var stofnað 11. nóvember og voru aðildarfélögin 22, þar af ýmis stærstu og öflugustu félögin eins og Dagsbrún og Hlíf auk félaganna í Vestmannaeyjum, Siglufirði og Neskaupstað sem og flest iðnaðarmannafélaganna í Reykjavík. 18

Á næsta þingi Alþýðusambandsins, haustið 1940, var skipulagi þess breytt og flokkseinokunin aflögð. Hið nýstofnaða Landssamband hafði þar með lokið hlutverki sínu. Breyting á fyrirkomulagi til stjórnarkjörs Alþýðusambandsins kom þó ekki til framkvæmda fyrr en á næsta þingi, 1942. Notuðu ráðamenn Alþýðusambandsins tímann til umdeildra breytinga á eignarhaldi fyrirtækja og fasteigna á vegum þess, að því er virðist með hjálp sænskra sósíaldemókrata.19

Með Vinnulöggjöfinni frá í júní 1938 var verkafólki í raun illmögulegt að standa utan verkalýðsfélaga. Það undirstrikaði hið augljósa: ekki var boðlegt að skilyrða kjörgengi til Sambandsþings og önnur félagsréttindi við aðild að Alþýðuflokknum.

Þó að umræðan í flokksblöðunum um skipulagsmál Alþýðusambandsins bæri þess almennt ekki vitni má telja víst að Stefán Jóhann Stefánsson, meðal annarra, hafi fyrir löngu séð hvert stefndi og reynt að undirbúa skipulagsbreytingarnar í tíma m.a. í samráði við bræðaraflokkana á Norðurlöndum. 19 Enginn frýr Stefáni Jóhanni vits, síst Jón Rafnsson:

Styrjarkæti Stebba Jóh.
stjórnar gætin hyggja,
fjendagrætis ferlegt þjó
fyllir sæti þriggja.

Segir í kappatali þriðju rímu af Rósinkranzi Á. Ívarssyni.

Það blés vissulega byrlega fyrir hinn nýstofnaða Sósíalistaflokk vorið 1939. Auk sigurs í Hlífardeilunni höfðu sósíalistar undir forystu Héðins Valdimarssonar völdin í Dagsbrún. Og séð var fyrir endann á einokun Alþýðuflokksins í Alþýðusambandinu.

Rúmum mánuði eftir lok Hlífardeilunnar „keypti” Alþýðuflokkurinn sig síðan inn í Þjóðstjórnina (1939-42), svo notað sé orðlag Morgunblaðins.20 Stjórnaraðildin gerði flokkinn m.a. meðábyrgan í bráðabirgðalögum sem var ætlað að hjálpa stórútgerðinni en skerti kjör almennings harkalega.

Skörp átök urðu innan Alþýðuflokksins um stjórnarþáttökuna.21 En sjónarmið Stefáns Jóhanns og Jónasar Guðmundssonar urðu ofan á - undir háðsyrðum sjálfstæðismanna.22

Vígstaða sósíalistanna virðist góð. En brátt flækjast málin.

Í ágúst 1939 gerðu Sovétríkin griðasáttmála við Þjóðverja. Þessi griðasáttmáli var hinum nýbökuðu, íslensku sósíalistum erfiður biti. Barátta gegn fasisma og nasisma hafði frá upphafi verið órjúfanlegur þáttur í starfi þeirra - ekki síst sovéthollasta hluta flokksins. Og hjarta þeirra sló með hinum ofsóttu þýsku kommúnistum.23

Kröfur um valdboð ríkisins í kjaradeilum, stofnun ríkislögreglu og aðstoðarlögregla eða „hvítliðar” voru kommúnistunum kaldur veruleiki og holdtekning fasismahættunnar. Í þeim málum átti Alþýðuflokkurinn lengi samleið með kommúnistunum, eða þar til fjara tók undan flokkseinokuninni í Alþýðusambandinu. 24

Kommúnistarnir þurftu nú í snatri að aðlagast breyttum viðhorfum og útskýra þau fyrir sjálfum sér og öðrum.

Í lok nóvember, þrem mánuðum eftir innrás Þjóðverja í Pólland réðst Rauði herinn inn í Finnland. Samkennd Íslendinga með Finnum varð til þess að þingseta sósíalistanna og sovéthollusta misbauð nú þingmönnum annarra flokka. Samþykkti Alþingi yfirlýsingu því til staðfestingar og vék þeim að auki úr Norrænu þingmannanefndinni.25

Og opinberar stofnanir settu auglýsingabann á Þjóðviljann. Blaðið lét sér þó ekki segjast og birti forherta leiðara undir fyrirsögnum eins og „Flóttinn til Finnlands” 26 eða talaði um „vandlætingaryfirlýsingu bitlingaklíkunnar”. 27

Ef einhverjum fannst hafa hallað á Alþýðuflokkinn á því sviði, viðraði nú fyrir siðferðisyfirburði Alþýðuflokksmanna. Settu þeir fátt af sér í þeim efnum. Má sem dæmi nefna „verkalýðsfund” í Iðnó sem flokkurinn boðaði til þar sem skorað var á ríkisstjórnina að hafa ströngustu gætur á allri starfsemi Sósíalistaflokkssins. 28

Þegar hinn sovétholli kjarni Sósíalistaflokksins, sem Jón tilheyrði, kom í veg fyrir fordæmingu á innrásinni sagði Héðinn Valdimarsson sig úr flokknum ásamt nokkrum stuðningsmanna sinna.

Í hönd fór harðvítug barátta um stærsta verkamannafélagið, Dagsbrún í Reykjavík, vígi Héðins. Var Jóni Rafnssyni vísast ætlað að styrkja baráttuglaða sveit sósíalista á þeim vígstöðvum og í átökunum um Alþýðusambandið.

Næsti kafli: Átök um Dagsbrún

Jón flutti lögheimili sitt frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur síðla árs 1939. Hann gekk í Dagsbrún og gerðist starfsmaður á skrifstofu Sósíalistaflokksins. Á næstu misserum var hann í hringiðu átaka um flaggskip íslenskra stéttarfélaga þessi ár, Verkamannafélagið Dagsbrún. Árin 1940-42 voru hallarbyltingar þar árvissar og tilþrifin nánast farsakennd.

Stjórnarkosningar í Dagsbrún í janúar 1940 voru haldnar undir oki kaupbindingar og gengisfellinga Þjóðstjórnarinnar, Þrælalögunum, sem margir nefndu. Atvinnuleysi var einnig geigvænlegt.1 Tveir listar komu fram, A-listi sitjandi stjórnar með Héðin Valdimarsson í formannssæti og B-listi Sjálfstæðisverkamanna í málfundafélaginu Óðni og Alþýðuflokksmanna.

Nefna Alþýðublaðið og Morgunblaðið B-listann Lista lýðræðisverkamanna en andstæðingarnir atvinnurekendalistann.2 Var seiður „Finnagaldursins” óspart kyrjaður af andstæðingum A-listans þó oddvitinn og aðrir á listanum yrðu vart sakaðir um sovéthollustu. Eini frambjóðandi A-listans sem tengdist Sósíalistaflokknum, Eðvarð Sigurðsson, var boðinn fram í varastjórn. Aðrir á listanum voru yfirlýstir stuðningsmenn Héðins.3

Fór svo að listi Alþýðuflokks og sjálfstæðismanna sigraði með 729 atkvæðum gegn 636. Gerðust þar þau stórtíðindi að dyggir Alþýðuflokksmenn náðu forystu í stærsta verkalýðsfélagi landsins með stuðningi Sjálfstæðisflokksins. Dagsbrún hafði 15 árin á undan verið óvinnandi vígi Héðins Valdimarssonar.

Ritstjóri Alþýðublaðsins þurfti nú ekki lengur að saka sjálfstæðismenn um kommúnistadekur eins og í Hlífardeilunni ári áður og tók gleði sína að nýju: „[..] og það er fyrirfram gefið mál að nú hafa kommúnistar og Héðinn Valdimarsson tapað stjórn [Dagsbrúnar] fyrir fullt og allt” segir í forsíðugrein blaðsins 21. Janúar.4

Eftir ósigurinn funduðu A-listamenn í Málfundafélagi Dagsbrúar, væntanlega með það fyrir augum að berja í bresti samstarfsins og skipuleggja framhaldið. Að sögn Alþýðublaðsins réðu kommúnistar lögum og lofum á fundinum og fór þar mjög fyrir Jóni Rafnssyni.5 Héðinsmenn stofnuðu í framhaldinu eigið málfundafélag, Málfundafélag verkamanna, við lítinn fögnuð Þjóðviljans.6

Slitnaði þar endanlega upp úr samvinnu Héðins og Sósíalistaflokksins. Ekki horfði heldur vænlega með sættir Héðins og Alþýðuflokks ef ráða má af skrifum Alþýðublaðsins.

Pólitískum metnaði Héðins var því skorinn þröngur stakkur í framhaldinu.

Hinn nýji formaður Dagsbrúnar, Einar Björnsson, var úr röðum Alþýðuflokksmanna. Einar hafði lítið komið við sögu í Dagsbrún en starfað á Vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins.7 Var Alþýðuflokknum að því er virðist nokkur vandi á höndum um val á forystumönnum í Dagsbrún eftir að Héðinn varð viðskila við flokkinn.8 Og „þrautreyndir Alþýðuflokksmenn” 9 gjarnan uppteknir í öðrum mikilvægum embættum.

Sjáfstæðismenn áttu þrjá fulltrúa af fimm í stjórninni þ.m.t. varaformanninn, Sigurð Halldórsson.10

Hin nýkjörna Dagsbrúnarstjórn samþykkti að taka sexmenningana svonefndu aftur í félagið. Það voru Dagsbrúnarfélagar sem reknir voru haustið 1938 fyrir að fylgja ekki eftir sameiningarsamþykktum félagsins í Fulltrúaráði verkalýðsfélaganna. Eins sagði stjórnin Dagsbrún úr Landsambandi íslenskra stéttarfélaga, þó ekki væri samkomulag innan stjórnarinnar um afstöðuna til Alþýðusambandsins. Þessar ákvarðanir var þó hægt að ógilda á félagsfundi sem teldi 300 manns eða fleiri.11

23. april samþykkti Dagsbrúnarfundur tillögu Jóns Rafnssonar um að Dagsbrún gengist fyrir sameiginlegum hátíðarhöldum verkalýðsfélaganna í Reykjavík 1. maí.12 Þegar fulltrúaráð verkalýðsfélaga innan A.S.Í. lagðist gegn tillögunni dró Dagsbrúnarstjórnin hins vegar í land. Sósíalistarnir auglýstu þó hátíðarhöld í nafni Dagsbrúnar með vísan í vikugamla samþykkt félagsfundar.13

Sjálfstæðismenn gátu heldur ekki sætt sig við að ganga undir merki hinnar feigu tvíeindar, Alþýðusambands og Alþýðuflokks, og kölluðu „matgoggsmerki”.14 Ritstjóri Alþýðublaðsins hvatti fólk hins vegar til að mæta á samkomu Fulltrúaráðsins og „[..] sýni þar með í verki samúð sína við bræðraþjóðir okkar á Norðurlöndum[..]” eins og segir í niðurlagi greinarinnar. Þjóðverjar höfðu þá nýlega hernumið Danmörku og Noreg. Var hugmynd ritstjórans líklega sú að frændum okkar yrði helst huggun að því ef menn fylktu sér undir merki íslensku kratanna.15

Þannig voru hátíðahöldin í Reykjavík 1. maí 1940 þríklofin. En Þjóðviljinn lét vel af „einingargöngu verkalýðsins” og útisamkomu. Var Jón þar meðal ræðumanna.16

10. maí hernámu Bretar Ísland. Varð hernámsliðið fljótlega stærsti vinnuveitandinn á Reykjavíkursvæðinu. Breyttist viðvarandi atvinnuleysi í umframeftirspurn eftir vinnuafli þegar kom fram á haustið 1940.

Meðal þeirra sem komust í Bretavinnu haustið 1940 var Brynjólfur Bjarnason, einn helsti forystumaður kommúnista allt frá miðjum þriðja áratugnum. Brynjólfur missti þó vinnuna í október þegar hann og félagar hans vildu ekki una samningsbrotum hernámsliðsins. En Bretarnir fluttu verkamenn á opnum bílpalli upp að Lögbergi utan Reykjavíkur sem fór í bága við lögreglusamþykkt og samninga Dagsbrúnar.17

Dagsbrún tók að sér launaútreikninga fyrir atvinnurekendur á þessum árum og hafði af því nokkrar tekjur. Þetta fyrirkomulag gilti í fyrstu einnig um Bretavinnuna. Greiddu Bretarnir, líkt og aðrir, félaginu 1% í ómakslaun.

Þegar hin nýja Dagsbrúnarstjórn hafði skipt um ráðsmann 18 og komið sér sæmilega fyrir missti Dagsbrún hins vegar þennan bretavinnuspón til Alþýðublaðsins. Varð það mörgum tilefni efasemda um félagshollustu þeirra Alþýðuflokksmanna. Blað Héðins Valdimarssonar, Nýtt land, talaði um að Dagsbrún hefði með þessu orðið af allt að 40 þús. króna tekjum á síðari helming ársins 1940.19

En steininn tók úr skömmu síðar þegar upp komst um stórfelldan fjárdrátt formanns og ráðsmanns úr sjóðum Dagsbrúnar. Fjárdrátturinn nam um 21.000 krónum á fáeinum mánuðum.20

Í júní 1940 var tímakaup Dagsbrúnarverkamanns kr 1,68.21 Upphæðin svaraði því til um 12 þúsund dagvinnutíma, sem er óneitanlega nærtæk viðmiðun.

Fleiri viðmið má hafa. Viku áður en misferlið komst upp fjallaði leiðari Alþýðublaðsins um höfðinglega gjöf sem barst Minningarsjóði Jóns Baldvinssonar. Gefandinn var útgerðarfélagið Hrafna Flóki í Hafnarfirði sem líkt og bæjarútgerðin þar naut forsjár framámanna Alþýðuflokksins. Gjöf Hrafna Flóka var eitt þúsund krónur.22

Sjóðþurðin setti í uppnám samvinnu Alþýðuflokksins og sjálfstæðismanna í Dagsbrún. Tóku hinir síðarnefndu við helstu trúnaðarstöðum í félaginu.23

Í byrjun árs unnu sjálfstæðismenn stjórnarkosningu í Hlíf í Hafnarfirði. Frami Sjálfstæðisflokksins í verkalýðsmálum þessi missiri varð Alþýðublaðiðnu gjarnan tilefni leiðaraskrifa í anda lærimeistarans þar sem nýgræðingarnir voru teknir til bæna. Skemmtilegt dæmi um slíkt tiltal er leiðari blaðsins 30.9.1940.24

Upplausn og niðurlæging eru þó líklega orð sem hafa má um mál Dagsbrúnar þegar líða tók á árið 1940. Kaupbindingin og gengislækkunin, þrengdi mjög kjör almennings en hagstætt afurðaverð, gengisfellingar og skattfrelsi skiluðu stórútgerðinni gróða.25

Stóraukin eftirspurn á vinnumarkaði með Bretavinnunni hefði átt að gera samningsstöðu verkalýðsfélaganna, einkum Dagsbrúnar, ákjósanlega. Úr því rættist þó verr en eðlilegt mátti teljast.

Eftir undirskriftasöfnun og áskorun félagsmanna 26 fékkst haldinn fundur í Dagsbrún 27. október. Fyrir fundinum lá mál málanna, uppsögn samninga. Að öðrum kosti blasti við sjálkrafa framlenging „Þrælalaganna”. Dagskrá fundarins var hins vegar þannig að fyrst átti að ræða fjárdráttinn og önnur hitamál sem vitað var að tækju langan tíma en fundaraðstaðan í Iðnó bundin við 3 klst.

Bar Jón Rafnsson fram tillögu um breytta röð dagskrárliða. Fundarstjórinn, Haraldur Guðmundsson, forseti sameinaðs Alþingis og forstjóri Tryggingastofnunar, bar tillögu Jóns ekki undir atkvæði en lofaði hins vegar fögru um framgang mála. Það var þó með herkjum að fundurinn náði að afgreiða uppsögn samninga. Var boðað til framhaldsfundar um óafgreidd mál innan hálfs mánaðar.

Töldu sósíalistarnir að fundarstjórinn hefði viljað drepa miklvægum málum á dreif. Tillaga Haraldar og stjórnarinnar um að fela stjórn og trúnaðarmannaráði samningsumleitanir og kröfugerð var kolfelld, fékk aðeins 10 atkvæði tillögumanna.27

Jón var kosinn í stjórnaruppástungunefnd á fundinum ásamt Felixi Guðmundssyni.28

Löngu fyrir aðkomu Jóns höfðu ítök kommúnista á Dagsbrúnarfundum verið vandamál stjórnar félagsins. Voru gerðar breytingar á lögum Dagsbrúnar í janúar 1937 sem færðu völd félagsfundar að verulegu leyti til trúnaðarmannaráðs sem mannað var fulltrúum félagsins á Alþýðusambandsþingi og þar með flokksbundnum Alþýðuflokksmönnum. Dagblaðið Vísir hjó eftir þessu í leiðara um það leyti og gagnrýndi: „[..] ekki af neinni sérstakri meðaumkvun með hinum rússneska hjálpræðisher hér úti á Íslandi, heldur til að sýna hvernig hugmyndir sósíalista eru um lýðræði. ” 29

„Vinnufriður” var lausnarorð Vísis og Morgunblaðsins meðan á þessum fundarhöldum stóð í Dagsbrún þarna undir árslok 1940. Og gælt við þá hugmynd að Vinnuveitandasambandið og Alþýðusambandið semdu beint.30

Mikið þótti liggja við að „kommúnistar” næðu ekki tökum á framhaldsfundinum í Dagsbrún um kaupgjaldsmálin. „Það væri því stórhættulegt fyrir hagsmuni verkamanna, ef kommúnistar fengju á fundinum á morgun kosna samninganefnd eftir sínu höfði.” segir Alþýðublaðið. 31 Morgunblað tók í svipaðan streng um nauðsynina á að „[..] áhrifa kommúnista gæti þar hvergi”.32

Eins og í fyrra skiptið var Haraldur Guðmundsson fenginn til að stjórna fundinum. Hann var haldinn í Iðnó 10. nóvember og sóttu um 350 manns. Fundurinn kaus tvo af fimm mönnum í samninganefnd félagsins en félagsstjórnin skyldi velja hina þrjá. Þetta fyrirkomulag var ákveðið að tillögu Héðinsmanna. Þóttust sósíalistarnir illa sviknir og sáu þar liðhlaup Héðinsmanna til „Þjóðstjórnarklíkunnar”. Var sósíalistinn Sigurður Guðnason borinn fram af báðum fylkingum en Jón Rafnsson féll fyrir Jóni Guðlaugssyni, fylgismanni Héðins með 159 atkv. gegn 181. 33

Samdráttur Héðins og Sjálfstæðisflokkins 1941

Samdráttur Héðins og sjálfstæðismanna í túlkun Spegilsins 7.2.1941. Sem fyrr er Magnús Sigurðsson aðalbankastjóri Landsbankans og stjórnarformaður S.Í.F. í fylgd með Ólafi Thors. Með öðrum gleraugum sýnir myndin helstu fulltrúa auðs og valda á Íslandi; fulltrúa bankavalds, stórútgerðar og olíuverslunar.

Í framhaldinu leystist fundurinn upp vegna átaka um meðferð á tillögu sósíalistans Eggerts Þorbjarnarson um að staðfesta brottrekstur sexmenninganna sem áður voru nefndir. Að tillögu Guðmundar Ó. Guðmundssonar, sem fór fyrir mönnum Héðins, var tillögu Eggerts vísað frá.34 Guðmundur Ó. brá þar hlífisskyldi yfir þá menn sem hann skömmu áður hafði tekið þátt í að reka.

Frávísunartillagan var naumlega samþykkt við handauppréttingu. Þegar fundarstjórinn hafnaði óskum um skriflega atkvæðagreiðslu varð uppþot á fundinum. 35

Handauppréttingar að viðstöddum atvinnuveitendum eða fulltrúum þeirra gáfu iðulega aðra niðurstöðu en leynileg atkvæðagreiðsla eins og nefnt var dæmi um í kaflanum um Hlífardeiluna.

Líklegt er að á fundinum hafi einhverjir átt atvinnu að sækja til Héðinsmanna. Þorlákur Ottesen, opinber stuðningsmaður Héðins, var t.d. verkstjóri við Reykjavíkurhöfn og Guðmundur Ó. Guðmundsson hafði mannaforráð í olíuverslun Héðins. Þótt í engu sé hallað á þessa menn kann viðvera þeirra að hafa haft áhrif við handauppréttingu. Þarna var líka verið að greiða atkvæði undir vökulu auga fundarstjórans, forstjóra Tryggingarstofnunar, forseta Alþingis m.m.

Opin andstaða við vinnuveitanda eða opinbert vald var ekki valkostur sem fyrirvinnur fjölskyldna tóku í kæruleysi í skugga kreppu og atvinnukúgunar.

Erfitt er að meta þátt Jóns Rafnssonar í uppþotinu. Í blaðaskrifum strax eftir fundinn virðist upphlaupið almennt ekki merkt Jóni sérstaklega. Þrem vikum síðar eða í byrjun desember samþykkti vanmannað trúnaðarmannaráð Dagsbrúnar hins vegar að víkja Jóni úr félaginu vegna látanna. Honum til samlætis var sjálfstæðismaðurinn Sveinn Sveinsson einnig rekinn. 36 Hér má hafa í huga að trúnaðarmannaráðið var alfarið skipað Alþýðusambandsfulltrúum og þar með flokksbundnum Alþýðuflokksmönnum.

Leiðari Þjóðviljans 7. desember líkir aðförunum við álygar þýskra nasista á hendur kommúnistum og segir Jón hafa gengið manna best fram við að stilla til friðar á fundinum og tekist það. 37

Hvað sem því leið þá er ljóst að „Þjóðstjórnarklíkunni” var engin sérstök eftirsjá að Jóni.38 En Jón skrifaði greinar í Þjóðviljann þar sem hann rakti að sínu leyti gang mála.39

Stjórn Dagsbrúnar boðaði til allsherjaratkvæðagreiðslu 20. desember um þrjú mál, heimild til vinnustöðvunar, afstöðuna til Alþýðusambandsins og loks hvort víkja ætti þeim Jóni og Sveini úr félaginu.40 Var brottreksturinn samþykktur með 4 atkvæða mun eða 565 atkv. gegn 561.

Má e.t.v. skoða úrslitin með hliðsjón af því að tveim dögum fyrir atkvæðagreiðsluna tók trúnaðarmannaráð félagsins, sem upphaf átti að brottrekstrinum, 259 nýja félagsmenn í Dagsbrún.41 Og þeim Sveini og Jóni var meinað að hafa fulltrúa á kjörstað.42

Heimild til vinnustöðvunar fékk hins vegar skýran stuðning í atkvæðagreiðslunni. Sömuleiðis varð niðurstaðan að standa utan Alþýðusambandins uns frjálsar kosningar til stjórnarkjörs hefðu farið þar fram.

Á gamlársdag 1940 var Alþýðublaðið enn vongott um friðsamlega lausn á kaupdeilu Dagsbrúnar.43 Fyrir lá samkomulag samninganefndar við atvinnurekendur sem bera þurfti undir samþykki félagsfundar. Var það gert á nýjarsdag. Fundurinn kolfelldi hins vegar samkomulagið með 446 atkvæðum gegn 101.

Verkfall var þar með skollið á í andstöðu við stjórn félagsins, landsstjórnina og bresku herstjórnina. Herstjórnin svaraði verkfallsboðuninni með verkbanni á félagssvæðinu og hótunum um að útiloka Dagsbrúnarmenn alfarið frá vinnu drægist verkfallið á langinn.44

Var látið liggja að því herinn myndi flytja inn vinnuafl ef svo bæri undir.45 Vel má gera sér í hugarlund hvaða áhrif sú tilhugsun - og útistöður við herinn yfirleitt - hafði á fyrirvinnur fjölskyldna sem vart voru sloppnar úr atvinnuleysi.

Eflaust hafði það líka áhrif á baráttugleðina að herstjórnin sýndi nú tennurnar og fangelsaði nokkra helstu forystumenn verkfallsins. Var tilefnið dreifibréf til bresku hermannanna með áskorun um að þeir gengju ekki í störf íslenskra verkamanna. Og fylgdu frómar útskýringingar sósíalistanna á eðli átakanna. 46

Ef dreifibréfið einkenndist af nokkurri bjartsýni eða takmarkaðri innsýn í hermennsku, þá voru viðbrögð Alþýðublaðisins í ýktara lagi, „[..]hvernig halda menn að það ástand yrði, sem skapaðist hér innanlands, ef kommúnistum tækist að æsa hina erlendu hermenn upp til óhlýðni við yfirmenn sína og ginna þá til fylgis við sig og fyrirætlanir sínar hér á landi? [..] Hjá agalausum, en vopnuðum erlendum her vænta þeir fulltingis til að brjótast til valda yfir sinni eigin þjóð og gera upp sakirnar við alla þá, sem þeir telja sig á einn eða annan hátt eiga eitthvað sökótt við. [..] Hér duga engin vettlingatök lengur” segir blaðið 7. janúar og telur að fenginni reynslu kommúnsta til alls vísa. 47

Alþýðublaðið talar í leiðara 6. janúar um að vonleysi hafi gripið um sig meðal verkfallsmanna og þvær hendur sínar af verkfallinu.48 Daginn eftir gat blaðið hins vegar birt áskorun Sáttasemjara til Dagsbrúnarstjónarinnar um allherjaratkvæðagreiðslu og greint frá því að hún sé hafin.

„Loksins [..]” byrjar blaðið leiðaraskrif sín 8. janúar að því tilefni.49 Verkfallið hafði þá staðið í 5 daga. Tillaga Sáttasemjara reyndist vera samkomulagið sem félagsfundur kolfelldi á nýjarsdag.

Þá var kjörseðillinn óvenjulegur að því leyti að á honum voru vinsamlegar ábendingar frá stjórn félagsins, þ.e. úrdráttur úr bréfi sáttasemjara þar sem hann í einlægni bendir á að hann geti ekki gert betur. 50

Opinber úrslit atkvæðagreiðslunnar urðu þau að samningurinn var naumlega samþykktur með 879 atkv. gegn 808. En sósíalistarnir, eini skipulagði hópurinn sem vildi berjast áfram, kvörtuðu undan því að fá ekki að hafa fulltrúa á kjörstað og ýmsum öðrum atriðum sem snertu framkvæmd kosningarinnar. 51

Varla fer á milli mála að bein og óbein áhrif breska hersins hafi ráðið miklu um úrslit atkvæðagreiðslunnar. Þeir sem söknuðu hervalds í Hlífardeilunni tveim árum áður fengu hér óskir sínar uppfylltar.

Helstu forystumenn verkfallsins, alls 10 menn, sátu í fangelsi í tengslum við dreifibréfsmálið.

Bretar skiluðu íslenskum yfirvöldum forræði í málinu að því tilskyldu að fangarnir yrðu ákærðir fyrir landráð. Ríkisstjórnin gaf síðan út bráðabirgðalög þar sem ákvæði um landráð voru hert.52 Dómar voru síðan kveðnir upp í framhaldi af þeirri réttarbót. Það lýsir stemningunni á flokksblöðunum að Alþýðublaðið talar um um „landráðamálið” í þessu samhengi en íhaldsblöðin um „dreifibréfsmálið”. 53

Jón Rafnsson, burtrekinn, birtist óvænt en ljóslifandi í leiðarara Alþýðublaðsins 10. janúar 1941. Sjálfstæðismennirnir í stjórn Dagsbrúnar sáu ekki betra ráð að morgni fyrsta verkfallsdags en að leita á náðir Jóns, „[..] einnar örgustu kommúnistasprautunnar hér í Reykjavík sem fyrir aðeins örstuttu síðan var búið að reka úr Dagsbrún [..] og aka með hann í bíl um bæinn til þess að geta notið hans ágætu aðstoðar við vinnustöðvunina” segir í leiðaranum. 54

Þykir Alþýðublaðinu að vonum skörin færast þar upp í bekkinn og sínir menn illa sniðgengnir. Óneitanlega hefði verið áhrifameira ef nýliðarnir hefðu haft með sér í bíltúrinn arftaka Jóns Baldvinssonar í Útvegsbankanum, Ásgeir Ásgeirsson bankastjóra, svo einhver sé nefndur af embættismannablóma Alþýðuflokksins. Ekki er að efa að verkfallsbrjótar hefðu orðið felmtri slegnir við þá sýn.

Spegillinn í maí 1941: Krataforystan

Spegillinn 2.5. 1941. Ásgeir Ásgeirsson flytur samflokksmönnum sínum, Stefáni Jóhanni og Sigurjóni Á. Ólafssyni góðar fréttir. Sigurjón tók við forsæti í Alþýðusambandinu af Stefáni Jóhanni 1940. Útisamkomur voru bannaðar 1. maí 1941 af lögreglustjóra, Agnari Koefod Hansen, í samráði við ríkisstjórnina. Var hætta á loftárásum tilgreind ástæða bannsins. Þá var nýafstaðin skrúðganga skáta og samkoma á sumardaginn fyrsta ásamt víðavangshlaupi sem fékk að sögn mikið áhorf.

Skömmu eftir lok verkfallsins eða 25. janúar voru haldnar stjórnarkosningar í Dagsbrún. Tóku sjálfstæðismenn þar saman við Héðin Valdimarsson eins og sósíalistarnir þóttust sjá fyrir eftir fundina í nóvember. Alþýðuflokkurinn bauð nú fram einn á báti og kallaði til Harald Guðmundsson forstjóra Tryggingastofnunar og forseta sameinaðs Alþingis að leiða listann.

Fyrir lista sósíalistanna fór Sigurður Guðnason verkamaður. Sigurður fylgdi Héðni á sínum tíma í Sósíalistaflokkinn en varð um kyrrt þegar Héðinn gekk út.

Listi Héðins og sjálfstæðismanna, A-listinn, sigraði með nokkrum yfirburðum, fékk 832 atkvæði, sósíalistarnir 488 og listi Alþýðuflokksmanna 391. Árangur sósíalistanna var þeim mun athyglisverðari sem þeir áttu í útistöðum við langstærsta atvinnuveitandann á félagssvæði Dagsbrúnar, herstjórn Bretanna. Í dreifibréfi A-listans fyrir kosningarnar var t.d. fullyrt að Bretavinnan yrði úr sögunni ef listi sósíalistanna sigraði.55 Þá sátu flestir lykilmenn þeirra og frambjóðendur í fangelsi.

Að kvöldi 26. apríl voru ritstjórar og blaðamaður Þjóðviljans handteknir á heimilum sínum af breska hernámsliðinu og fluttir til Englands. Blaðið var jafnframt bannað. 56

28. april mótmælti sameinað Alþingi handtökunum og útgáfubanninu.57 Voru viðbrögð blaða yfirleitt á einn veg, eindregin andstaða gegn mannránunum. Fór þar fyrir öðrum Árni Jónsson frá Múla. Í ritstjórnargrein hans í Vísi 28. apríl segir m.a. : „Það getur vel verið, að vegna afstöðu sumra íslenzkra blaða hafi Bretar fengið þá hugmynd, að við værum miklu þykkjuminni en raun er á. Undirlægjuháttur sumra íslenzkra blaða er svo megn, að furðu sætir. Af þeim sökum má vera að Bretar telji okkur aumari en við erum. Vel má vera, að Bretum komi á óvart þau mótmæli, sem fram eru borin út af hinum síðustu atburðum. En þeim er óhætt að trúa, að á bak við þau mótmæli stendur hugur allra sannra Íslendinga.” 58 Hér skortir mjög á samúð ritstjórans með Alþýðublaðinu. Bakhjarl Alþýðuflokksins, dönsku kratarnir, sættu hernámi nasista um þetta leyti við magran kost en Alþýðublaðið með verulegar tekjur af breska hernum eins og áður kom fram.

Var mótmælum Alþingis strax gerð góð skil í málgögnum flokkanna að frátöldu Alþýðublaðinu sem túlkaði málstað herstjórnarinnar á forsíðu. 59

22. júní þetta ár, 1941, réðust Þjóðverjar inn í Sovétríkin. Tóku finnskar hersveitir þátt í innrásinni og slitu Finnar stjórnmálasambandi við Breta um það leyti. 60

Og Sovétríkin urðu bandamenn Vesturveldanna í stríðinu. Lægði þá um tíma þann mótbyr sem sósíalistarnir sættu vegna sovéthollustunnar eða allt fram að upphafi Kalda stríðsins, 1947.

Í júlí tóku Bandaríkjamenn við hersetunni af Bretum og í byrjun ágúst komu starfsmenn Þjóðviljans, og aðrir fangar sem hafðir voru í haldi í Bretlandi, heim til Íslands. 61

Framundan var skammvinn þíða í verkalýðspólitíkinni.

Þessum kafla er ólokið.